Dægurfluga (Cloeon simile)

Útbreiðsla

Vestanverð Evrópa frá Norður-Noregi suður til Katalóníu.

Ísland: Láglendi um land allt nema á Vestfjarðakjálka.

Lífshættir

Ungviði alast upp í vötnum. Grunnar tjarnir henta best sem uppeldisstöðvar, einnig lygnur meðfram árbökkum. Gyðlurnar skríða um í grotinu á botninum eða í botngróðrinum og geta tekið stutta sundspretti. Þær skrapa í sig þörunga af steinum og gróðri og lífrænar agnir úr setinu. Hér á landi hafa gyðlur fundist í júlí og fram í ágúst. Einnig hafa gyðlur og púpur fundist í fiskamögum eftir miðjan september. Fullorðin dýr hafa fundist í seinni hluta júlí og fram í september, einkum þó í ágúst. Í nágrannalöndum okkar er talið að tvær kynslóðir þroskist á ári. Þar er flugtíminn langur, allt frá mars og fram í nóvember. Gyðlustig brúar veturinn til vors.

Fullvaxnar gyðlur púpa sig í vatnsyfirborðinu. Fullorðin dýr skríða þar úr púpum um hábjartan dag og komast fljótlega á flug. Kynin makast á flugi og kvendýrin fara að því loknu niður að vatnsyfirborðinu og verpa þar eggjum sínum allt að 3500 að tölu. Að því loknu falla þær niður á vatnsflötinn til að deyja. Líftími fullorðnu dýranna er því afar skammur.

Almennt

Þetta er eina tegund dægurflugna hér á landi. Hún er fáséð og vandfundin en fundarstaðirnir eru dreifðir á láglendi í öllum landshlutum nema á Vestfjarðakjálka.

Fullþroska dægurfluga (10 mm) er mjög fíngerð og veikburða. Skelin er frekar mjúk, liturinn gulbrúnn. Lýsingin í umfjöllun um ættina á vel við okkar tegund. Hún líkist engum skordýrum öðrum hérlendis. Það er heillandi að sjá dýrin fljúga fislétt á löngum framvængjum vingsandi löngum skottum yfir vatnsfleti. Vængina leggja þær saman þegar þær tylla sér og beina þeim afturhallandi upp frá bolnum. Afturvængi vantar með öllu. Gyðlur líkjast fullorðnum dýrum umtalsvert þó vængina vanti. Hins vegar hafa þær hliðstæð tálkn á sjö fremstu liðum afturbolsins og þrjú skott öllu styttri en á fullorðnum dýrum, af svipaðri lengd og afturbolurinn.

Útbreiðslukort

Heimildir

Tuxen, S.L. 1938. Plecoptera and Ephemeroptera. Zoology of Iceland III, Part 39. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 4 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson, 7. október 2022.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Dægurflugur (Ephemeroptera)
Ætt (Family)
Dægurfluguætt (Baetidae)
Tegund (Species)
Dægurfluga (Cloeon simile)