Kornsúra (Bistorta vivipara)

Útbreiðsla

Kornsúra er ein algengasta jurt á Íslandi og vex í alls konar landi. Hún finnst frá láglendi upp í 1150 m hæð í fjöllunum. Hæstu fundarstaðir eru í 1290 m í Steinþórsfelli í Esjufjöllum, 1240 m á Staðargangnafjalli á Tröllaskaga og í 1220 m í hlíð Litlahnjúks í Svarfaðardal og í Kirkjufjalli við Hörgárdal.

Almennt

Æxlikornin ganga einnig undir nafninu vallarkorn og voru notuð til matar. Eins er jarðstöngullinn sætur og vel ætur. Hann er grófur og snúinn og mögulega er það þess vegna sem jurtin hefur fengið nöfnin höggormsjurt og dreki. Vegna læknismáttar síns hefur jurtin einnig gengið undir nafninu kveisugras (Ágúst H. Bjarnason 1994). Komið hefur í ljós að jarðstöngullinn er afar þýðingarmikill við uppeldi heiðagæsarunga á hálendi Íslands. Á þeim svæðum þar sem heiðargæsir eru mikið á beit á sumrin má oft sjá mosabreiðurnar þétt settar litlum götum sem eru far eftir aðfarir heiðagæsarinnar við að ná stönglunum.

Nytjar

Rótin er nýtt til grasalækninga en hún er góð við særindum og blæðingum í meltingarvegi auk niðurgangs. Eins er gott að útbúa skol gegn tannholdsbólgu, særindum í leggöngum og nota seyði á sár sem illa gróa (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Jurtin inniheldur t.a.m. barksýrur og galleplasýru (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Vex í flestum gróðurlendum, mólendi, bollum, mýrum, melum og flögum, jafnt til fjalla sem í byggð (Hörður Kristinsson 2010).

Lýsing

Fremur lágvaxin planta (8–20 sm) með hvítum blómum í axleitum klasa á stöngulenda. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Jarðstöngullinn er stuttur en þykkur og næringarríkur. Einn eða fleiri uppréttir stönglar rísa upp frá jarðstönglinum. Laufblöðin eru stilkuð, heilrend, dökk græn og gljáandi á efra borði en ljósgræn að neðan, blaðrendur niðurorpnar. Blöðin eru nánast hárlaus, stundum þó lítið eitt hærð á neðra borði, blaðkan egglensulaga eða egglaga, 2–6 sm á lengd, 5–15 mm á breidd. Stofnblöðin eru oft egglaga með þverum grunni, 2-4 sm löng, en stöngulblöðin eru lensulaga og mjókka jafnt niður að stilknum og geta orðið 4-10 sm löng og 7-15 mm breið.

Blóm

Blómin eru hvít, stundum bleik eða grænleit, stuttleggjuð í axleitum klasa á stöngulendanum. Blómin eru tvíkynja. Blómhlífin einföld, fimmdeild, blómhlífarblöðin 3–4 mm á lengd, öfugegglaga eða perulaga. Bikarblöð vantar en himnukennd, móleit stoðblöð eru á milli blómanna. Fræflar sex til átta, frjóhirslur dökkfjólubláar. Ein þrístrend fræva með þrem löngum stílum sem standa langt út úr blóminu.

Aldin

Neðst í blómskipaninni er oftast mikið af æxlikornum (fuglakorn) í öxlum himnukenndra stoðblaða í stað blóma. Þau eru perulaga, brún, rauð eða mógræn neðan til með ljósri trjónu, 3-4,5 mm á lengd. Æxlikornin koma í stað fræja. Þau falla af plöntunni síðsumars eða á haustin, og skjóta greiðlega rótum og mynda ný blöð. Stundum myndast ný blöð á æxlikornum áður en þau falla af plöntunni, svo axið verður blaðgróið.  Aldin nær sjaldan að þroskast.

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir. 1998. Íslenskar lækningjurtir: söfnun þeirra, notkun og áhrif (2. útg.). Íslensk náttúra IV. Mál og menning, Reykjavík.

Ágúst H. Bjarnason og Eggert Pétursson. 1994. Íslensk flóra með litmyndum. Forlagið, Reykjavík.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Súruætt (Polygonaceae)
Tegund (Species)
Kornsúra (Bistorta vivipara)