Tófugras (Cystopteris fragilis)

Útbreiðsla

Algengasti burkninn á Íslandi og finnst nánast um allt land. Einna sjaldgæfast er það þó á Miðhálendinu. Til fjalla fer það oft upp í 7-800 m hæð, en hæstu fundarstaðir eru í 1050 m í Öskju, og 900 m í suðurhlíð Tungnafellsjökuls.

Búsvæði

Tófugrasið vex í klettaskorum, gjótum, hraunsprungum, hellum og urð. Oftast í skugga.

Lýsing

Miðlungsstór burkni (10–30 sm) með tvífjöðruðum blöðkum og nokkuð bil milli smáblaðanna.

Blað

Láréttur eða uppsveigður, fremur stuttur jarðstöngull. Blöðkurnar eru á alllöngum stilk sem oft er þriðjungur til helmingur af lengd blaðsins, sumargrænar. Stilkurinn er grannur og brotgjarn, venjulega dökkbrúnn eða rauðbrúnn og gljáandi, en stundum grænn. Blöðkurnar eru margskiptar, tví- til þrífjaðraðar, breiðastar neðan til eða um miðju en mjókka fram í odd. Hliðarsmáblöðin eru oft gisstæð neðst, en þéttstæðari þegar nær dregur oddinum. Þau eru breiðust næst miðstrengnum en mjókka í oddinn. Smáblöð annarrar gráðu eru fjaðursepótt eða flipótt.

Blóm

5-12 kringlóttir Gróblettir í tveim röðum á neðra borði, fremur smáir og fíngerðir. Gróhula sést til hliðar við þá á meðan þeir eru ungir, en hverfur við meiri þroskun, og þá renna gróblettirnir stundum meira eða minna saman.

Aldin

Gróin með göddótt yfirborð.

Greining

Líkist helst liðfætlu en hún hefur loðnar og flösugar blöðkur og er því auðþekkst frá tófugrasi sem er hárlaust. Refagras líkist tófugrasi einnig nokkuð en gró þess hafa netkennt yfirborð á móti göddóttu yfirborði gróa tófugrassins (sést í smásjá).

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Burknar (Polypodiopsida)
Ætt (Family)
Tófugrasaætt (Cystopteridaceae)
Tegund (Species)
Tófugras (Cystopteris fragilis)