Hlutverk og skipulag
Náttúrufræðistofnun starfar samkvæmt lögum nr. 54/2024 um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur. Meginhlutverk stofnunarinnar er að stunda undirstöðurannsóknir á náttúru Íslands, afla og vinna staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um landið, auk þess að reka náttúrurannsóknastöð við Mývatn.

Verkefni stofnunarinnar samkvæmt 3. gr. laganna eru meðal annars að:
- stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands,
- varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn á vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengileg gagnasöfn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru,
- skrá og kortleggja kerfisbundið einstaka þætti íslenskrar náttúru, meðal annars um jarðfræði og útbreiðslu tegunda,
- styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu til skóla, fjölmiðla og almennings,
- veita leiðbeiningar um hóflega nýtingu náttúruauðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja, sem og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna,
- rannsakna villta stofna spendýra og fugla,
- annast fuglamerkingar og hefur stofnunin ein heimild til að láta merkja villta fugla á Íslandi,
- greina frá niðurstöðum rannsókna í fræðslu- og vísindaritum,
- skrá berg- og jarðgrunna landsins kerfisbundið,
- skrá náttúruminjar, annast mat á verndargildi þeirra og hafa umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár,
- bera ábyrgð á vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru að því marki sem hún er ekki falin öðrum stofnunum með lögum eða reglum settum á grundvelli þeirra,
- byggja upp og viðhalda viðmiðunarkerfum og aðgengilegu landshnitakerfi og hæðarkerfi fyrir allt Ísland,
- hafa frumkvæði að gerð og notkun staðla á sviði landupplýsinga,
- þróa og viðhalda landupplýsingum um vatnafar, yfirborð, vegi og samgöngur, örnefni, stjórnsýslumörk, mannvirki, hæðarlínur og hæðarpunkta,
- fara með framkvæmd laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, þar með talið að sjá um rekstur, viðhald og tæknilega þróun landupplýsingagáttar,
- skrá og viðhalda örnefnagrunni í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum; innihald gagnagrunnsins skal vera aðgengilegt gjaldfrjálst og almenningi skal gert kleift að skrá örnefni í grunninn,
- þróa og viðhalda stafrænum landupplýsingagrunnum í samráði við viðeigandi stjórnvöld,
- sinna öðrum verkefnum samkvæmt sérlögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.