Vistgerðir
Náttúrufræðistofnun skilgreinir og flokkar íslenskar vistgerðir. Þær eru flokkaðar samkvæmt alþjóðlegum aðferðum og leggja grunn að skynsamlegri landnotkun, vernd náttúrunnar og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.
Vistgerðakort sýnir útbreiðslu 105 vistgerða á landi, í ferskvatni og fjöru. Kortlagning vistgerða byggir að mestu leyti á fjarkönnun (fyrirvari) þar sem notaðar eru gervitunglamyndir frá RapidEye, SPOT og LANDSAT, ásamt loftmyndum. Vettvangsvinna var einnig yfirgripsmikill þáttur í kortlagningunni, skipulögð og unnin af starfsfólki Náttúrufræðistofnunar og samstarfsaðilum á árunum 1999–2016. Að auki voru notuð tiltæk landupplýsingagögn, svo sem gróðurkort, hæðarlíkön, vatnafar, úrkoma og útbreiðsla hrauna, skóga og ræktaðs lands. Nákvæmni kortsins miðast við mælikvarða 1:25.000.
Ítarleg umfjöllun um skilgreiningu og flokkun vistgerða er í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar nr. 54, Vistgerðir á Íslandi og á vistgerðasíðum á vefnum.
Náttúrufræðistofnun tekur gjarnan á móti athugasemdum við vistgerðakortin. Ábendingar má senda í tölvupósti á netfangið natt@natt.is.
Vistgerðir eru sameinaðar mikilvægum fuglasvæðum í einni kortasjá og er jafnframt hægt að skoða í Kortaglugga með fleiri gögnum. Í lýsigagnagátt má sækja gögnin og skoða upplýsingar um þau:
