Gróðurkort
Gróðurkort sýna mörk gróðurfélaga og landgerða. Gróður er flokkaður eftir ríkjandi tegundum í gróðurfélög sem síðan eru sameinuð í stærri einingar sem kallast gróðurlendi. Þar sem gróðurþekja er minni en 10% flokkast land sem lítt eða ógróið og er þá flokkað eftir landgerð.
Gróðurkort af Íslandi. Miðhálendið og kortlögð láglendissvæði
Unnið er að heildstæðu gagnasafni landupplýsinga um gróður á Íslandi í viðmiðunarmælikvarða 1:25.000. Út frá því hefur verið gefið út gróðurkort af miðhálendi Íslands sem nær yfir um 52.000 km2, eða um 50% af flatarmáli landsins. Einnig er unnið er að því að yfirfæra eldri gögn af láglendi Íslands á stafrænt form. Stefnt er að því að því verki ljúki innan fárra ára. Þá verður til heildstætt gagnasafn landupplýsinga um gróðurfar á Íslandi í nákvæmum mælikvarða.

Gróðurkort af Íslandi. Yfirlitskort
Náttúrufræðistofnun hefur gefið út gróðurkort af Íslandi í mælikvarða 1:500.000. Kortið sýnir einfalda samantekt á ríkjandi gróðursamfélögum og veitir heildaryfirsýn yfir gróðurfar landsins. Kortlagning er byggð á fyrirliggjandi gróðurkortagögnum, loftmyndum, gervitunglamyndum og korti Skógræktar ríkisins af birkiskógum og kjarri. Gróðurkortið var gefið út árið 1998.

Gróður- og jarðakort (Rala) 1:25.000
Gróður- og jarðakort, alls 28 kortblöð í mælikvarðanum 1:25.000, sýna fimm flokka gróðursamfélaga, aðgreind hvert með sínum lit. Þeir skiptast í átta gróðurlendi. Auk þess sýna kortin landgerðir, landamerki jarða, hreppa- og sýslumörk. Kortin voru unnin á árunum 1977–1987 og gefin út af Rannsóknastofnun landbúnaðarins (Rala).
Blaðskipting (pdf)
Niðurhal (tiff, hnitsett)

Gróður- og jarðakort (Rala) 1:20.000 (Byggðakort)
Gróður- og jarðakort, oft nefnd byggðakort, eru alls 11 kortablöð í mælikvarðanum 1:20.000. Þau sýna gróðurfélög, landgerðir, landamerki jarðeigna, hreppa og sýslumörk. Gróður er flokkaður í um 90 gróðurfélög og byggir gróður- og landgreining á gróðurlykli sem Steindór Steindórsson tók saman. Kortin voru unnin á árunum 1968–1977 og gefin út af Rannsóknastofnun landbúnaðarins (Rala).
Blaðskipting (pdf)
Niðurhal (tiff, hnitsett)

Gróðurkort af Íslandi (Rala) 1:40.000 (Hálendiskort)
Gróðurkort, alls 65 kortablöð í mælikvarðanum 1:40.000, oft nefnd hálendiskort, sýna gróðurfélög og landgerðir á hálendi Íslands, afréttum og öðrum svæðum. Tilgangur kortlagningarinnar var að ákvarða beitarþol og styðja við stjórnun á nýtingu beitilanda. Gróður- og landgreining byggir á gróðurlykli sem Steindór Steindórsson tók saman. Kortin voru unnin á árunum 1961–1980 og gefin út af Rannsóknastofnun landbúnaðarins (Rala) og Menningarsjóði.
Kortasjá (tiff)
Blaðskipting (pdf)
Niðurhal (tiff, hnitsett)
