Örnefni
Örnefni eru sérnöfn yfir staði og fyrirbæri í landslagi, eins og bæi, fjöll og ár. Þau endurspegla oft landnotkun, náttúrufar og sögu þjóðarinnar og eru mikilvægur hluti menningararfsins. Skráning og varðveisla þeirra tryggir að þessi dýrmæta þekking glatist ekki.
Náttúrufræðistofnun hefur umsjón með gagnagrunni yfir örnefni Íslands, ber ábyrgð á uppfærslu hans og viðheldur landupplýsingum um örnefni úr grunninum í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Almenningi skal gert kleift að skrá örnefni í grunninn og aðgengi að honum skal vera gjaldfrjálst. Örnefni eru birt í Örnefnasjá og gagnasettið er í grunnkorti IS 50V.
Örnefni eru hnituð ofan á myndgögn og eru í þremur lögum: flákalag, punktalag og línulag. Grunnurinn að örnefnagrunninum er hnitsetning Atlaskorta, DMA- og AMS kortblaða en síðan hafa bæst við fleiri heimildir og staðkunnugir eru dýrmætir heimildarmenn.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum vinnur að verkefnum er varða örnefni og er gott samstarf milli stofnananna. Þegar upp koma vafamál eða spurningar varðandi heimildir örnefna leitar Náttúrufræðistofnun til Árnastofnunar þar sem grúskað er í heimildum. Árnastofnun heldur utan um allar örnefnalýsingar jarða, margra afrétta og svæða á hálendinu auk skráa um nöfn á miðum.
Örnefnanefnd veitir rökstutt álit um örnefni vegna birtingar í opinberum örnefnagrunni hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar samkvæmdt lögum nr. 22/2015 um örnefni.
Örnefnaskráning
Örnefni eru staðsett í gagnagrunninum af starfsfólki stofnunarinnar en einnig fer fram mikil og ómetanleg vinna hjá fólki sem er búsett um allt land og hefur þekkingu á örnefnum í sínu umhverfi. Oftast hafa einstaklingar sem eru fróðir um örnefni á sínu svæði beint samband en í sumum tilvikum hafa átthagafélög, félög eldri borgar eða sveitarfélög sett á laggirnar verkefni með sínu fólki og komið sér þannig í samband við stofnunina.
Fólk með staðbundna þekkingu getur tekið þátt í verkefninu með því að fá sendar myndir til að teikna inn og afmarka örnefni eða með því að nota sérstakan örnefnaritil til að skrá örnefni beint inn í grunninn. Örnefnin eru lesin yfir vikulega af starfsfólki Náttúrufræðistofnunar og birt í kjölfarið. Uppfærsla örnefna í Grunnkort IS 50V er gerð fjórum sinnum á ári. Grunnheimildir fyrir skráningu örnefna eru örnefnalýsingar og eldri kort.
Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar heldur reglulega námskeið um allt land um skráningu örnefna og eru þau auglýst á vef og samfélagsmiðlum stofnunarinnar. Gerðar hafa verið greinargóðar leiðbeiningar bæði sem myndskeið og texti:

Átak í örnefnaskráningu
Á undanförnum árum hefur verið gert átak í skráningu örnefna og námskeið verið haldin um allt land þar sem áhugasamt og staðkunnugt fólk hefur lært að skrá í örnefnagrunn stofnunarinnar. Á myndum af Austurlandi má sjá aukningu sem hefur orðið á fjölda skráðra örnefna á tíu ára tímabili.

