Landslag
Jarðminjar í íslensku landslagi
Ríkisstjórn Íslands samþykkti árið 2019 fullgildingu Íslands á Landslagssamningi Evrópu. Samningnum er ætlað að stuðla að verndun, stýringu og skipulagi landslags ásamt því að koma á fót evrópsku samstarfi um landslag.
Landslag á Íslandi er sérstakt og jafnvel einstakt á heimsvísu vegna fjölbreytileika í fágætum landslagsgerðum. Jarðminjar og jarðfræðileg ferli (landmótun) hafa átt stóran þátt í að skapa það landslag sem við þekkjum á Íslandi í dag og má þar nefna jökla eða jöklalandslag, eldfjöll eða eldfjallalandslag. Það er mikilvægt að skilja vel þau ferli sem einkenna landslagsgerðir og hvaða áhrif þau hafa á verndargildi landslags. Dæmi um þetta er staðsetning landsins á rekbelti Norður-Atlantshafshryggjarins sem kemur fram í landslagi virku gosbelta landsins. Rekbeltið endurspeglast í gossprungum (móbergshryggjum og gígaröðum) á landi í því að þessi landform raðast upp í ákveðnar stefnur, suðvestur-norðaustur, ásamt gliðnunarsprungum, misgengum og sigdölum. Sambærilegt landslag má sjá víða neðansjávar þar sem landrek á sér stað, en á þurru landi er það einstakt á heimsvísu.
Hvað einkennir íslenskt landslag?
Í íslenskum landslagsrannsóknum hefur verið bent á að sérkenni íslensks landslags koma einkum fram í svæðum með eldvirkni, móbergshryggi og háhitasvæði. Jöklar og vatnafar landsins eru mikilvæg landslagseinkenni svo sem skriðjöklar, jökullón, heiðarvötn, jökulár, fossar og lindir. Þá skiptir staðsetning landsins í Norður-Atlantshafi miklu máli er varðar ýmsa umhverfisþætti svo sem loftslag og samsetning lífríkis þ.m.t. gróðurs.
Á hálendinu myndast einstakar gróðurvinjar þar sem vatn er til staðar og oft framan við jökla þar sem framburður jökuls og jökuláa er næringaríkur. Þá eru sífrerar og flár jarðminjar sem skapast við sérstakar umhverfisaðstæður tengdu loftslagi og njóta alþjóðlegrar verndar vegna sérstöðu sinnar. Hálendið hefur mikla sérstöðu með lítt gróin landsvæði, mikla víðsýni og stórbrotið landslag. Víðerni landsins eru stór svæði sem njóta verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og eru skilgreind sem: „Svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja […]“. Slík svæði eru orðin fágæt í Evrópu sem aftur á móti eykur verndargildi þeirra sem eftir eru. Annað sem gefur íslensku landslagi sérstöðu tengist lífríkisþáttum eða sögu mannvistar, til dæmis mosavaxnar hraunbreiður og slitrótt gróðurhula.
Heimild:
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Þorvarður Árnason, Hlynur Bárðarson og Karen Pálsdóttir, 2010. Íslenskt landslag. Sjónræn einkenni, flokkun og mat á fjölbreytni. Unnið fyrir Orkustofnun vegna Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Reykjavík: Háskóli Íslands.
