Skip to main content
search

Söguleg gögn

Upp úr aldamótunum 1900 hófust markvissar mælingar hér á landi sem urðu grunnur að stórum hluta korta af Íslandi sem enn eru notuð í dag. Þá gaf danska hermálaráðuneytið landmælingadeild herforingjaráðsins fyrirmæli um að hefja nýjar landmælingar og kortagerð á Íslandi. Þetta umfangsmikla verkefni stóð yfir í 27 sumur á árunum 1900–1940, þar með talinn allur undirbúningur. Árið 1928 var danska landmælingastofnunin Geodætisk Institut stofnuð og tók hún þá við Íslandsmælingum af herforingjaráðinu.

Á grundvelli þessara mælinga höfðu Danir, í lok síðari heimsstyrjaldar, gefið út Atlaskort í mælikvarða 1:100 000, alls 87 kortblöð sem þekja allt landið. Að gerð kortanna komu 70 landmælinga- og kortagerðarmenn og um 300 aðstoðarmenn, bæði íslenskir og danskir. Í kortsjá má skoða Atlaskortin og þau eru einnig aðgengileg í kortasafni Náttúrufræðistofnunar.

Danskir landmælingamenn gerðu einnig uppdrætti af íslenskum bæjum, þéttbýlissvæðum og þorpum á tímabilinu 1902–1920 og eru þeir aðgengilegir í kortasjá. 

Að auki má í kortasjánni finna fjölda sögulegra ljósmynda sem teknar voru af dönskum landmælingamönnum í upphafi síðustu aldar, flestar á árunum 1900–1910. Myndirnar bárust Landmælingum Íslands í veglegri gjöf frá dönsku landmælingastofnuninni árið 1985. Safnið inniheldur 594 myndir á glerplötum og myndaspjöldum, þar af eru flestar steríómyndir (þrívíddarmyndir) og um 70 eru tví- eða þrítökumyndir.