Skip to main content
search

Fjarkönnun

Fjarkönnun er aðferð til að afla gagna um yfirborð jarðar með mælingum úr lofti eða geimnum, til dæmis með drónum, flugvélum, gervitunglum eða öðrum fjarkönnunarbúnaði. Tækni á þessu sviði nýtist meðal annars til vöktunar á náttúru, auðlindum og umhverfisbreytingum. Með fjarkönnun er hægt að greina breytingar á landi, í sjó og andrúmslofti, styðja við stefnumótun stjórnvalda og miðla vísindalegum upplýsingum til samfélagsins.

Náttúrufræðistofnun nýtir fjarkönnun í fjölbreyttum verkefnum, meðal annars í gegnum Copernicus-áætlun Evrópusambandsins, sem veitir aðgang að umfangsmiklum gervihnattagögnum. Einnig eru nýttar loftmyndir, sem gegna mikilvægu hlutverki við kortlagningu og greiningu á breytingum á íslensku landslagi.

Copernicus-áætlunin

Náttúrufræðistofnun er fulltrúi Íslands í stýrihóp Copernicus-vöktunaráætlunar Evrópusambandsins sem hefur það hlutverk að vakta stöðu umhverfisins á landi, sjó og andrúmslofti og stuðla um leið að bættu öryggi jarðarbúa. Copernicus er eitt umfangsmesta vöktunarverkefni sambandsins og er Ísland fullgildur aðili þess í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið.

Til að afla nauðsynlegra gagna rekur Copernicus nokkur gervitungl og veitir aðgang að upplýsingum frá þeim, auk annarra mælinga í gegnum fjölmargar vefþjónustur. Ísland hefur fullan aðgang að þessum þjónustum, sem veita upplýsingar um stöðu og þróun ýmissa umhverfisþátta, svo sem sjávar, andrúmslofts, náttúruvár, öryggis, landnotkunar og loftslagsbreytinga. Öll gögn og þjónustur Copernicus eru gjaldfrjáls.

Náttúrufræðistofnun tekur þátt í tveimur verkefnum á vegum Copernicus: 

  • FPCUP (Framework Partnership Agreement on Copernicus User Uptake), sem miðar að því að auka notkun og aðgengi að Copernicus-gögnum í Evrópu, meðal annars með fræðslu, þjálfun og þróun innviða fyrir betri nýtingu gervihnattaupplýsinga.
  • CAMS NCP (Copernicus Atmosphere Monitoring Service – National Collaboration Programme), sem beinist að loftgæðum og samsetningu andrúmslofts og stuðlar að betra aðgengi og aukinni notkun Copernicus-gagna á Íslandi.  Á vegum verkefnisins hefur verið unnið að loftgæðaspám sem má nálgast í Loftgæðasjá.
     

Skoða Ísland í Copernicus kortasjánni.

CORINE landgerðir

CORINE er samevrópskt landflokkunarverkefni sem er hluti af Copernicus-áætluninni og felur í sér kortlagningu á landgerðum.