Fjarkönnun
Fjarkönnun er aðferð til að afla gagna um yfirborð jarðar með mælingum úr lofti eða geimnum, til dæmis með drónum, flugvélum, gervitunglum eða öðrum fjarkönnunarbúnaði. Tækni á þessu sviði nýtist til vöktunar á náttúru, auðlindum og umhverfisbreytingum. Með fjarkönnun er hægt að greina breytingar á landi, sjó og í andrúmslofti, styðja við stefnumótun og miðla vísindalegum upplýsingum til samfélagsins.
Náttúrufræðistofnun nýtir fjarkönnun í fjölbreyttum verkefnum, meðal annars í gegnum Copernicus, sem veitir aðgang að umfangsmiklum gervihnattagögnum Evrópusambandsins ásamt loftmyndum, sem eru mikilvægur gagnagrunnur til kortlagningar og greiningar á breytingum á íslensku landslagi.
Copernicus áætlunin
Náttúrufræðistofnun er fulltrúi Íslands í Copernicus vöktunaráætlun Evrópusambandsins sem hefur það hlutverk að vakta stöðu umhverfisins á landi, sjó og lofti og stuðla um leið að bættu öryggi jarðarbúa. Copernicus er eitt umfangsmesta vöktunarverkefni sambandsins og er Ísland fullgildur aðili þess í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið.
Til að afla nauðsynlegra gagna rekur Copernicus nokkur gervitungl og veitir aðgang að upplýsingum frá þeim, auk annarra mælinga í gegnum fjölmargar vefþjónustur. Ísland hefur fullan aðgang að þessum þjónustum, sem veita upplýsingar um stöðu og þróun ýmissa umhverfisþátta, svo sem sjávar, andrúmslofts, náttúruvár, öryggis, landnotkunar og loftslagsbreytinga. Öll gögn og þjónustur Copernicus eru gjaldfrjáls.
Náttúrufræðistofnun tekur þátt í tveimur verkefnum á vegum Copernicus, FPCUP og CAMS NCP. FPCUP-verkefnið miðar að því að auka notkun og aðgengi að Copernicus-gögnum í Evrópu, meðal annars með fræðslu, þjálfun og þróun innviða fyrir betri nýtingu gervihnattaupplýsinga. CAMS NCP-verkefnið beinist að loftgæðum og samsetningu andrúmslofts og stuðlar að betra aðgengi og aukinni notkun Copernicus-gagna á Íslandi. Á vegum CAMS NCP-verkefnisins er unnið að verkefni sem snýr að loftgæðum og loftgæðaspám sem má sjá í Loftgæðasjá.
Skoða Ísland í Copernicus kortasjánni.
CORINE landgerðir
CORINE er samevrópskt landflokkunarverkefni sem er hluti af Copernicus áætluninni og felur í sér kortlagningu á landgerðum.