Skip to main content
search

Loftmyndir

Unnið er að því að afla nákvæmra loftmynda í 25x25 cm upplausn fyrir landið allt og 10x10 cm upplausn á höfuðborgarsvæðinu og á stóru svæði í kringum Keflavíkurflugvöll, í þeim tilgangi að útbúa nákvæmt og heildstætt loftmyndakort af öllu landinu. Myndirnar verða aðgengilegar öllum í gegnum kortasjár og vefþjónustur til notkunar í GIS-hugbúnaði. Notendur munu einnig getað sótt myndir án endurgjalds. 

Fyrirtækin Meixner og Hexagon vinna að myndatökunni en gert er ráð fyrir að hún taki þrjú ár (2024–2026). 

Loftljósmyndastofa

Á starfsstöð Náttúrufræðistofnunar í Garðabæ er starfrækt loftljósmyndastofa. Loftljósmyndastofan sérhæfir sig í ljósmyndun úr lofti, það er úr flugvélum, þyrlum eða flygildum (drónum). Myndvinnslan byggist síðan á myndmælingatækni (e. photogrammetry) sem felst í úrvinnslu mynda til mælinga og þrívíddarnotkunar en á í raun við allar gerðir af myndatöku, eins og af landi eða sjó en ekki aðeins úr lofti. Markmið loftljósmyndastofunnar er að geta boðið vísindamönnum samstarfstofnanna upp á ljósmyndun í góðri upplausn sem hentar til gerðar þrívíddarlíkana og stereóvinnslu í vísindatilgangi.

Eldri loftmyndir

Loftmyndasjá er kortasjá með sögulegum loftmyndum úr safni Náttúrufræðistofnunar. Í loftmyndasjánni má greina breytingar á landslagi og þéttbýli, svo sem hopun jökla, hraunflæði eða útbreiðslu gróðurs. Hún nýtist til kennslu, til dæmis til að sýna nemendum áhrif loftslagsbreytinga, sem og við rannsóknir, skipulagsvinnu og sögulega greiningu. Hún getur jafnframt nýst jarðeigendum til að sjá breytingar á landi sínu. Loftmyndasjáin býður þannig upp á innsýn í þróun landsins í tímans rás, bæði til fróðleiks og gagns. 

Í loftmyndasafninu má finna:

  • 30.546 myndaramma frá árunum 1973–2000 (allt landið)
  • 10.099 myndaramma frá árunum 1945–1946 (AMS-serían, allt landið)  
  • 13.484 myndir frá árunum 1956–1961 (DMA-serían, 80% af landinu)  
  • 40 myndir frá árinu 1980 (Hexagon KH9-PC gervihnattasería, 1x1 m upplausn, 80% af landinu) 

Notkun á myndunum er leyfð án endurgjalds samkvæmt skilmálum Náttúrufræðistofnunar um afnot gagna.