Opin gögn
Það er stefna stjórnvalda að gögn opinberra stofnana séu opin, aðgengileg og gjaldfrjáls. Náttúrufræðistofnun vinnur að því að gera gögn sín aðgengileg, nema um þau gildi sérstakar reglur svo sem vegna persónuverndar, náttúruverndar eða öryggismála. Fjöldi gagna er þegar birtur í landupplýsingagátt stofnunarinnar, Kortaglugga Íslands, skráður í lýsigagnagátt og aðgengilegur í niðurhali. Sömuleiðis eru gögn aðgengileg í alþjóðlegum gagnagáttum á borð við Global Biodiversity Information Facility (GBIF) og European Plate Observing System (EPOS).
Leitast er við að vísindagreinar starfsfólks Náttúrufræðistofnunar séu birtar í opnum aðgangi. Nokkur verkefni sem unnin eru á stofnuninni njóta opinberra styrkja og samkvæmt lögum nr. 3/2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir ber að birta niðurstöður slíkra rannsókna í opnum aðgangi.
Afnot gagna
Opin gögn Náttúrufræðistofnunar eru gefin út samkvæmt Creative Commons afnotaleyfi, CC BY 4.0 (Attribution 4.0 International Deed), í samræmi við lög nr. 45/2018 um endurnot opinberra upplýsinga.
Þegar opin gögn Náttúrufræðistofnunar eru notuð undir þessu leyfi skal ávallt tilgreina upprunalegan höfund (Náttúrufræðistofnun), heiti gagnasetts og leyfisskilmála. Sjá nánar leiðbeiningar á síðunni Recommended practices for attribution eða notið innsláttarform Open Attribution Builder.
Dæmi um auðkenningu: "IS 50V Vatnafar" by Náttúrufræðistofnun is licensed under CC BY 4.0.
Fyrirvarar á gögnum
Náttúrufræðistofnun ber enga ábyrgð á því hvort gögn stofnunarinnar henta til þeirra nota sem notandi ætlast til. Öll gögn eru birt eins og þau eru hverju sinni í gagnasöfnum Náttúrufræðistofnunar eða við uppfærslu kortasjáa.
Gæði gagna eru mismunandi eftir uppruna, bæði hvað varðar nákvæmni og áreiðanleika. Stofnunin ber ekki ábyrgð á afleiðingum sem kunna að hljótast af því. Stofnunin ber ekki ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem hljótast kann af notkun gagna eða afleiddra gagna nema að því marki sem kynni að falla undir lög nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Að öðru leyti undanþiggur Náttúrufræðistofnun sig tjóni að því marki sem lög leyfa.
Vegna aðgerða íslenskra stjórnvalda til að sporna gegn utanvegaakstri og takmarka eða koma í veg fyrir umferð á ákveðnum svæðum áréttar Náttúrufræðistofnun að notendur birtra gagna bera sjálfir ábyrgð á að fylgjast með opinberum tilkynningum um lokanir vega og slóða. Slíkar aðgerðir stjórnvalda ganga alltaf framar þeim upplýsingum um vegi og slóða sem finna má í gagnagrunnum Náttúrufræðistofnunar hverju sinni.