Opin gögn
Það er stefna stjórnvalda að gögn opinberra stofnana séu opin, aðgengileg og gjaldfrjáls. Náttúrufræðistofnun vinnur að því að koma gögnum stofnunarinnar í opið aðgengi, nema um þau gildi sérstakar reglur svo sem vegna persónuverndar, náttúruverndar eða öryggismála. Mikið af gögnum stofnunarinnar er birt í Kortaglugga, skráð í Lýsigagnagátt og aðgengileg í Niðurhali. Sömuleiðis eru gögn aðgengileg í alþjóðlegum gagnagáttum eins og Global Biodiversity Information Facility (GBIF) og European Plate Observing System (EPOS).
Leitast er við að vísindagreinar starfsfólks Náttúrufræðistofnunar séu birtar í opnum aðgangi. Nokkur verkefni sem unnin eru á stofnuninni njóta opinberra styrkja en samkvæmt lögum nr. 3/2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir skulu niðurstöður rannsókna sem kostaðar eru með styrkjum úr opinberum sjóðum vera birtar í opnum aðgangi.
Afnot gagna
Opin gögn Náttúrufræðistofnunar eru gefin út samkvæmt Creative Commons afnotaleyfi, CC BY 4.0 (Attribution 4.0 International Deed), í samræmi við lög nr. 45/2018 um endurnot opinberra upplýsinga.
Þegar opin gögn Náttúrufræðistofnunar eru notuð undir þessu leyfi skal ávallt tilgreina upprunalegan höfund (Náttúrufræðistofnun), heiti gagnasetts og leyfisskilmála. Sjá nánar leiðbeiningar á síðunni Recommended practices for attribution eða notið innsláttarform Open Attribution Builder.
Dæmi um auðkenningu: "IS 50V Vatnafar" by Náttúrufræðistofnun is licensed under CC BY 4.0.
Fyrirvarar á gögnum
Náttúrufræðistofnun ber enga ábyrgð á því hvort gögn stofnunarinnar henta til þeirra nota sem notandi ætlast til. Öll gögn eru birt eins og þau eru hverju sinni í gagnasöfnum Náttúrufræðistofnunar eða við uppfærslu kortasjáa.
Gæði gagna eru mismunandi eftir uppruna, bæði hvað varðar nákvæmni og áreiðanleika. Náttúrufræðistofnun ber ekki ábyrgð á afleiðingum sem kunna að hljótast af því. Stofnunin ber ekki ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem hljótast kann af notkun gagna eða afleiddra gagna nema að því marki sem kynni að falla undir lög nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Að öðru leyti undanþiggur Náttúrufræðistofnun sig tjóni að því marki sem lög leyfa.
Vegna aðgerða íslenskra stjórnvalda til að sporna gegn utanvegaakstri og takmarka eða koma í veg fyrir umferð á ákveðnum svæðum áréttar Náttúrufræðistofnun að notendur birtra gagna bera sjálfir ábyrgð á að fylgjast með opinberum tilkynningum um lokanir vega og slóða. Slíkar aðgerðir stjórnvalda ganga alltaf framar þeim upplýsingum um vegi og slóða sem finna má í gagnagrunnum Náttúrufræðistofnunar hverju sinni.