Grunngerð landupplýsinga
Markmið laga nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar er að byggja upp og viðhalda grunngerð slíkra upplýsingar á vegum hins opinbera og tryggja aðgengi stjórnvalda og almennings að landupplýsingum um Ísland. Með því er stuðlað að aukinni nýtingu og bættum gæðum landupplýsinga. Lögin byggja á INSPIRE-tilskipun Evrópusambandsins sem kveður á um stofnun samræmdrar grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar innan Evrópu og að bæta aðgengi að landupplýsingum í opinberri eigu. Í samræmi við tilskipunina kveða íslensku lögin á um að grunngerð landupplýsinga skuli samanstanda af tækni, stefnum, stöðlum og mannauði sem nauðsynlegur er til söfnunar, vinnslu, miðlunar og almennrar notkunar stafrænna landupplýsinga. Tæknilegar kröfur og útfærslur laganna eru nánar útfærðar í reglugerð nr. 390/2012 um lýsigögn fyrir stafrænar landupplýsingar og reglugerð nr. 414/2014 um stafrænar landupplýsingar.
Lögin ná til allra landupplýsinga sem opinberar stofnanir og sveitarfélög á Íslandi safna, varðveita og miðla, nema þær falli undir undanþágu frá upplýsingalögum nr. 140/2012. Lög nr. 45/2018 um endurnot opinberra upplýsinga styðja jafnframt við framkvæmd laganna um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar.
Náttúrufræðistofnun fer með framkvæmd laganna og ber ábyrgð á rekstri, viðhaldi og tæknilegri þróun landupplýsingagáttar eða Kortaglugga sem veitir opinn aðgang að stafrænum landupplýsingum og upplýsingum um þær. Í Kortaglugga er boðið upp á eftirtaldar þjónustur:
- Lýsigagnaþjónusta sem gerir notendum kleift að leita að stafrænum landupplýsingum og tengdri þjónustu.
- Skoðunarþjónusta sem gefur notendum kost á að skoða gögn, skýringar þeirra og lýsigögn, fara um þau, þysja, hliðra og skara.
- Niðurhalsþjónusta sem gefur kost á að hlaða niður afriti af stafrænum landupplýsingum eða fá beinan aðgang að þeim, að hluta eða í heild.
- Vörpunarþjónusta sem stuðlar að samhæfni gagna með því að varpa stafrænum landupplýsingum yfir í sameiginlegt hnitakerfi.
- Þjónusta til að virkja ólíka vefþjónustu landupplýsinga.