Skip to main content
search

Náttúrusýningar

Náttúrufræðistofnun starfrækir ekki sýningarsafn náttúrugripa. Náttúruminjasafn Íslands hefur það hlutverk að byggja upp og reka sýningar- og fræðslusafn ásamt því að aðstoða við gerð náttúrusýninga og veita ráðgjöf. Náttúrufræðistofnun gegnir þar hlutverki vísindalegs bakhjarls.

Náttúrufræðistofnun rekur eftir sem áður umfangsmikil og verðmæt vísindasöfn sem innihalda nokkrar milljónir náttúrugripa. Oft eru gripir úr þessum söfnum fengnir að láni til sýninga með milligöngu Náttúruminjasafns Íslands. Meðal safna og sýninga sem stofnunin hefur lánað gripi má nefna Hvalasafnið á Húsavík, Selasetur Íslands á Hvammstanga og Borgarsögusafn.

Saga sýningarhalds Náttúrufræðistofnunar

Náttúrufræðistofnun á rætur að rekja til náttúrugripasafnsins, sem Hið íslenska náttúrufræðifélag stofnaði árið 1889. Árið 1947 afhenti félagið ríkinu safnið til eignar og voru fyrstu lögin um það sett árið 1951 og fékk það þá nafnið Náttúrugripasafn Íslands. Árið 1965 voru lögin endurskoðuð og fékk safnið heitið Náttúrufræðistofnun Íslands og umfangsmeira hlutverk en áður. Stofnuninni bar meðal annars að „koma upp sem fullkomnustu vísindalegu safni íslenskra og erlendra náttúrugripa og varðveita það“ auk þess að „koma upp sýningarsafni sem veiti sem gleggst yfirlit um náttúru Íslands og sé opið almenningi“. 

Sýningarsafnið var starfrækt í Safnahúsinu við Hverfisgötu árin 1908–1960 og í húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands við Hlemmtorg árin 1967–2008.  Með setningu laga um Náttúruminjasafn Íslands árið 2007 féll niður skylda Náttúrufræðistofnunar um rekstur sýningarsafns en ný stofnun skyldi byggja upp og reka sýningar- og fræðslusafn um náttúru landsins.