STOFNUNIN

Náttúrufræðistofnun er ríkisstofnun sem heyrir til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru á Akranesi en aðrar starfsstöðvar eru á Akureyri, við Mývatn, á Breiðdalsvík og í Garðabæ. Á stofnuninni starfa um 80 manns við rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands, landmælingar, landupplýsingar, miðlun upplýsinga og uppbyggingu vísindasafna og gagnasafna. Þá sinnir stofnunin fjölbreyttri stjórnsýslu og gegnir veigamiklu hlutverki í ráðgjöf um verndun og nýtingu náttúrunnar. Enskt heiti stofnunarinnar er Natural Science Institute of Iceland.
Meginmarkmið Náttúrufræðistofnunar er að hafa þekkingu á íslenskri náttúru. Gildi stofnunarinnar eru fagmennska, samvinna og gott aðgengi að áreiðanlegum gögnum til aukinnar þekkingar og upplýstrar ákvarðanatöku.
Framtíðarsýn
Náttúrufræðistofnun stefnir að því að vera í fremstu röð sem ábyrg vísinda- og fræðastofnun, þar sem rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands og áreiðanlegar landupplýsingar skapa grundvöll þekkingar í þágu samfélagsins.