Ráðgjöf
Náttúrufræðistofnun veitir faglega ráðgjöf um náttúru Íslands í samræmi við lögbundið hlutverk sitt. Samkvæmt lögum ber stofnuninni að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja, auk þess að meta áhrif landnotkunar og mannvirkjagerðar á náttúruna. Stofnunin veitir slíka ráðgjöf, meðal annars til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og í formi umsagna til skipulagsyfirvalda.
Stofnunin tekur einnig að sér ráðgjafarverkefni að beiðni ýmissa aðila, svo sem orkufyrirtækja, sveitarfélaga og einkaaðila (sjá gjaldskrá). Markmið slíkra verkefna er að afla grunngagna um náttúrufar tiltekinna svæða svo unnt sé að leggja faglegt mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og meta áhrif mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna. Niðurstöður ráðgjafarverkefna eru gefnar út í skýrslum til verkkaupa.
Stofnunin fer með framkvæmd laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar sem felur í sér að vinna að auknu aðgengi samfélagsins að landupplýsingum til að stuðla að skilvirkri ákvarðanatöku. Stofnunin veitir jafnframt opinberum stofnunum ráðgjöf í landupplýsingaverkefnum.
Stofnunin heldur við landshnitakerfinu ISN2016 og veitir aðstoð við útreikninga hnita á milli hnitakerfa (Cocodati/Varpi).