Kortagluggi
Kortagluggi er gátt grunngerðarverkefnisins og veitir aðgang að opinberum landupplýsingagögnum frá fjölmörgum aðilum, þar á meðal ríkisstofnunum, sveitarfélögum og opinberum fyrirtækjum. Gögnin eru tengd við lýsigögn sem geyma upplýsingar um gögnin sjálf og gæði þeirra. Þar má einnig finna ítarefni, svo sem tengla á opnar skoðunar- og niðurhalsþjónustur, kortasjár, skýrslur og annað tengt efni.
Kortaglugginn byggir á kortasjárkerfi sem skrifað hefur verið innan Náttúrufræðistofnunar og byggir á opnum hugbúnaðarsöfnum. Það er í stöðugri þróun, meðal annars með það að markmiði að aðlaga kerfið að gögnum sem upphaflega voru ekki ætluð sem landupplýsingar, til dæmis px-vef Hagstofu Íslands sem birtir tölfræðigögn. Ýmsar stofnanir og ráðuneyti hafa nýtt sér kortasjárkerfið til birtingar eigin gagna, þar á meðal Umhverfisstofnun, Minjastofnun, Byggðastofnun og forsætisráðuneytið.
Frá því að grunngerðarverkefnið var sett á laggirnar með lögum hafa verið haldnir reglubundnir fundir með stofnunum sem tengjast grunngerð landupplýsinga hér á landi. Markmið fundanna er að efla tengsl, stuðla að samlegðaráhrifum, miðla reynslu og þekkingu og þannig styðja við samræmingu í landupplýsingaverkefnum svo gögn stofnana nýtist sem flestum.