Alþjóðlegt samstarf
Náttúrufræðistofnun annast framkvæmd nokkurra alþjóðlegra samninga og samþykkta fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og sinnir einnig verkefnum fyrir svæðisbundnar alþjóðlegar stofnanir. Starfsfólk stofnunarinnar tekur virkan þátt í margháttuðu alþjóðlegu samstarfi og samvinnuverkefnum á sviði stofnunarinnar og mörg rannsóknarverkefni stofnunarinnar tengjast alþjóðlegum skuldbindingum.
AEWA-samningurinn (African-Eurasian Waterbird Agreement) miðar að því að samræma aðgerðir til verndar votlendisfuglum á farleiðum þeirra. Samningurinn nær til flestra fuglategunda sem verpa eða hafa viðkomu á Íslandi. Náttúrufræðistofnun annast framkvæmd samningsins hér á landi í samstarfi við umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið og á fulltrúa í tækniráði AEWA. Þá á stofnunin einnig fulltrúa í alþjóðlegum vinnuhópi um sjálfbæra og virka stjórn gæsastofna (EGM-IWG).
Bernarsamningurinn hefur það að meginmarkmiði að vernda evrópskar tegundir villtra plantna og dýra og vistgerðir sem þarfnast verndar. Hann er ein helsta undirstaða náttúruverndar í Evrópu og hefur haft veruleg áhrif á löggjöf og framkvæmd náttúruverndar í aðildarríkjum, meðal annars hvað varðar skráningu, flokkun, mat og vöktun náttúru. Frá árinu 2021 hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið haft umsjón með framkvæmd samningsins hér á landi en starfsfólk Náttúrufræðistofnunar á fulltrúa í sérfræðinganefndum hans. Má þar nefna nefnd um framandi ágengar tegundir og nefnd um net náttúruverndarsvæða, svokallað smaragðsnet (Emerald Network).
CITES-samningurinn (The Convention on International Trade in Endangered Species of Wild Fauna and Flora) er alþjóðlegur samningur sem miðar að því að stjórna og hafa eftirlit með alþjóðlegri verslun með tegundir plantna og dýra sem eru í útrýmingarhættu. Náttúrufræðistofnun gegnir hlutverki vísindalegs stjórnvalds samkvæmt samningnum. Það felur í sér að veita ráðgjöf varðandi plöntu- og dýrategundir sem ekki falla undir nytjastofna sjávar.
Copernicus-áætlunin er umfangsmikið verkefni á vegum Evrópusambandsins og er Náttúrufræðistofnun fulltrúi í stýrihópum þess fyrir Íslands hönd. Hlutverk verkefnisins er að vakta stöðu umhverfisins á landi, sjó og lofti og stuðla um leið að bættu öryggi jarðarbúa.
GBIF (Global Biodiversity Information Facility) er alþjóðlegt samstarf sem miðar að því að gera gagnasöfn um líffræðilega fjölbreytni aðgengileg á einum sameiginlegum vettvangi á netinu og tengja saman ólíkar gerðir náttúrufarsupplýsinga. Fulltrúi Náttúrufræðistofnunar gegnir hlutverki samhæfingarstjóra (e. node manager).
Lífríkisvernd á norðurslóðum (CAFF) er samþykkt á sviði náttúruverndar sem heyrir undir Norðurskautsráðið, þar sem Ísland á aðild. Náttúrufræðistofnun skipar fulltrúa Íslands í stjórn CAFF, auk þess sem starfsfólk stofnunarinnar tekur virkan þátt í störfum sérfræðingahópa innan samstarfsins. Þar má nefna hópa um líffræðilega fjölbreytni, vöktun lífríkis, flóru, gróður, sjófugla og friðlandanet.
Ramsarsamningurinn (The Convention on Wetlands) er alþjóðasamningur sem miðar að vernd votlendissvæða og dýrategunda sem eru háðar votlendi. Náttúrufræðistofnun gegnir því hlutverki að veita umsagnir um verndargildi votlendissvæða og miðla upplýsingum um lífríki þeirra, sérstaklega um fuglategundir.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) er alþjóðlegur samningur sem nærri öll ríki heims eiga aðild að. Markmið hans er þríþætt: að vernda líffræðilega fjölbreytni, stuðla að sjálfbærri nýtingu lífrænna auðlinda og tryggja sanngjarna og réttláta skiptingu arðs að slíkri nýtingu. Náttúrufræðistofnun hefur tekið þátt í fundum aðildarríkjanna og á fulltrúa í vísinda- og tækninefnd samningsins (SBSTTA).
Auk alþjóðlegra verkefna sem Náttúrufræðistofnun hefur verið falið að vinna sem hluta af reglubundnu starfi stofnunarinnar, er fjöldi annarra fjölþjóðlegra verkefna sem stofnunin hefur tekið að sér. Það eru yfirleitt verkefni sem mynda tengsla- og samstarfsnet á fagsviðum stofnunarinnar innanlands og utan.
Arctic Spatial Data Infrastructure (Arctic SDI) verkefnið snýst um að byggja upp grunngerð landupplýsinga á Norðurslóðum og byggir það á samvinnu 10 kortastofnana frá Íslandi, Grænlandi, Dannmörku (Færeyjum), Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Rússlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Verkefnið á sér nokkra sögu en á fundi forstjóra norrænna kortastofnana sem haldinn var í Illulissat á Grænlandi í september 2008 var samþykkt að beina því til Norðuskautsráðsins (Arctic Council) að kortastofnanir Norðurlandanna myndu hafa frumkvæði að því að byggja upp grunngerð fyrir landupplýsingar á norðurslóðum. Síðan þá hefur verið unnið að málinu í náinni samvinnu við Norðurskautsráðið og fleiri.
EPOS-Ísland er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar, Háskóla Íslands, Íslenskra orkurannsókna og Veðurstofu Íslands, sem leiðir verkefnið. Markmið þess er að byggja upp innviði í formi öflugrar gagnaþjónustu sem veitir opið aðgengi að mikilvægum jarðvísindagögnum og þjónustum frá Íslandi. Gagnaþjónustan er hluti af samevrópsku gagnaþjónustunni EPOS ERIC (European Research Infrastructure Consortium) sem rekin er af EPOS (The European Plate Observing System). Veitt er gjaldfrjálst aðgengi að jarðvísindagögnum þar sem lögð er áhersla á gæði, stöðlun og lýsigögn. EPOS-Ísland er styrkt af Innviðasjóði Rannís og hefur verkefnið þegar skilað sér í betra aðgengi að rafrænum jarðvísindagögnum frá Íslandi. Afrakstur verkefnisins mun styðja við vísindastarf og styrkja samkeppnisstöðu íslenskra rannsókna á alþjóðavettvangi.
Eurogeographics eru samtök korta- og fasteignastofnana í Evrópu. Þau mynda faglegan vettvang sem hefur meðal annars það hlutverk að samræma kortagögn í Evrópu, auk þess sem unnið er að því innan samtakanna að auka þekkingu meðlima á þeim málefnum sem eru efst á baugi hverju sinni á starfssviði stofnananna. Náttúrufræðistofnun er meðlimur í EuroGeographics og tekur virkan þátt í starfseminni, meðal annars með því að vinna og senda inn gögn af Íslandi í miðlæga gagnagrunna.
Evrópska umhverfisupplýsinga- og vöktunarnetið (Eionet) er samstarfsnet Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) og aðildarríkja. Fulltrúar Náttúrufræðistofnunar hafa tekið þátt í málefnamiðstöð (European Topic Center) um líffræðilegan fjölbreytileika og vistkerfi.
Global Geospatial Information Management (GGIM) er alþjóðlegt samstarfsverkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna sem miðar að því að efla og samræma notkun landfræðilegra gagna. Markmiðið er að skapa vettvang og samræmingu á sviði landupplýsinga á milli ríkja, stuðla að samræmdum stöðlum og stefnum fyrir söfnun, úrvinnslu og miðlun landfræðilegra gagna, efla getu ríkja til að nota landfræðileg gögn í stefnumótun og ákvarðanatöku, einkum í tengslum við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030, og auka skilning á því að landupplýsingar og kortagögn skipta miklu máli, meðal annars til að bregðast við aukinni tíðni náttúruhamfara og áfalla í heiminum. Náttúrufræðistofnun hefur verið virkur þátttakandi í þessu verkefni frá upphafi og fylgjast vel með framvindu GGIM-verkefnisins.
Nordic Geodetic Commission (NKG) eru samtök sérfræðinga á sviði landmælinga frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum. Megintilgangur samtakanna er að efla samvinnu og skiptast á faglegri þekkingu. Starfið er aðallega byggt á starfi vinnuhópa en auk þess fundar stjórn landmælingaráðsins um tvisvar á ári.
Norrænt samstarf korta- og fasteignastofnana er viðamikið norrænt samstarf korta- og fasteignastofnana sem Náttúrufræðistofnun er þátttakandi í. Níu stofnanir frá öllum Norðurlöndum, að Færeyjum og Grænlandi meðtöldum, taka þátt í samstarfinu og korta- og fasteignastofnanir frá baltneskum löndum koma að vinnuhópum í einstaka tilvikum.
ProGEO (The European Association for the Conservation of the Geological Heritage) eru evrópsk félagasamtök sem hafa það að markmiði að stuðla að verndun jarðminja og landslags, ásamt því að efla fræðslu um og þekkingu á jarðfræðilegum verðmætum. Samtökin eru í samstarfi við Alþjóðajarðfræðisambandið (IUGS) og Alþjóðanáttúruverndarsambandið (IUCN) og eiga að auki í samskiptum við UNESCO, jarðvanga og önnur náttúruverndarsamtök. Náttúrufræðistofnun er aðili að ProGEO og á fulltrúa Íslands innan samtakanna.
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Náttúrufræðistofnun hefur skipað eitt af tveimur sætum Íslands í dómnefnd umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs frá því árið 2023. Árið 2024 var Ísland með formennsku í dómnefndinni og var haldinn fundur í byrjun september í Norræna Húsinu þar sem dómnefndin hittist og valdi sigurvegara verðlaunann fyrir árið 2024. Þema ársins var sjálfbær og vistvæn byggingagerð.
UNESCO-jarðvangar (UNESCO Global Geoparks) eru alþjóðleg samtök með það að markmiði að efla fræðslu innan jarðvanga, með áherslu á jarðminjar, lífríki og menningarminjar, stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu og stuðla að sjálfbærri starfsemi í heimabyggð. Á Íslandi eru tveir jarðvangar sem hafa hlotið viðurkenningu UNESCO: Katla jarðvangur og Reykjanes jarðvangur. Starfsmaður Náttúrufræðistofnunar á sæti í Íslandsnefnd UNESCO-jarðvanga.
VectorNet er evrópskt samstarfsverkefni sem miðar að því að rannsaka útbreiðslu sýklabera í Evrópu. Náttúrufræðistofnun tekur þátt í verkefninu með árlegri söfnun skógarmítla á skilgreindum svæðum, þar sem notast er við staðlaðar aðferðir.
Verndun villtra nytjajurta og skyldra tegunda (Crop Wild Relatives) er norrænt samstarfsverkefni þar sem Náttúrufræðistofnun á fulltrúa.