LANDMÆLINGAR
Landmælingar eru vísindaleg og tæknileg aðferð sem felur í sér að mæla, skrá og greina yfirborð jarðar, þar með talið staðsetningu, lögun og hæð jarðfræðilegra og manngerðra fyrirbæra.
Nákvæmar og samræmdar landmælingar eru grunnstoð margra þátta í nútímasamfélagi – allt frá skipulagsgerð og mannvirkjagerð til náttúruverndar, loftslagsrannsókna og neyðarviðbragða. Með þeim fáum við öruggar og áreiðanlegar upplýsingar um yfirborð jarðar, lögun landsins og hæð, sem eru ómissandi við ákvarðanatöku, rannsóknir og uppbyggingu innviða.
Sérstaða Íslands krefst sérhæfðrar nálgunar
Ísland er staðsett á flekaskilum Norður-Atlantshafshryggsins þar sem jarðskorpuhreyfingar, eldvirkni og jarðskjálftar eru hluti af daglegum veruleika. Landið færist til, að meðaltali um 1 cm á ári í hvora átt, og slík virkni veldur staðbundinni bjögun á mælikerfum. Þetta gerir stöðuga vöktun og endurmælingar nauðsynlegar til að viðhalda nákvæmum staðsetningargögnum.
Hlutverk Náttúrufræðistofnunar
Náttúrufræðistofnun ber ábyrgð á landmælingakerfum Íslands samkvæmt lögum nr. 54/2024 um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur sem sameinuðu Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Um er að ræða allar helstu grunnstoðir landmælinga – landshnitakerfi, hæðarkerfi og staðsetningarþjónusta.
Hlutverk stofnunarinnar er m.a. að:
- Viðhalda, þróa og tryggja aðgang að samræmu hnitakerfi og hæðarkerfi fyrir Ísland
- Taka tillit til hreyfinga jarðskorpunnar og tryggja áreiðanleika í umbreytingu hnita
- Veita faglega ráðgjöf til almennings, stjórnvalda og fagaðila
- Miðla gögnum og skjölum um landmælingar á aðgengilegan hátt