Kortagögn
Kortlagning lífríkis, jarðfræði, örnefna og ýmissa náttúrufyrirbæra er yfirgripsmikið verkefni Náttúrufræðistofnunar. Með kortlagningu verða til landupplýsingar, sem eru rafræn gögn með upplýsingum um staðsetningu og eðli fyrirbæra. Stofnunin heldur einnig utan um grundvallargögn á borð við hæðarlínur, stjórnsýslumörk sveitarfélaga og landnotkun.
Náttúrufræðistofnun ber ábyrgð á framkvæmd laga nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar og leiðir innleiðingu þeirra á landsvísu. Hún miðlar jafnframt þekkingu og rekur miðlægan Kortaglugga.
Kortlagning og landupplýsingar gegna mikilvægu hlutverki við stefnumótun stjórnvalda, meðal annars í tengslum við framkvæmdir, skipulagsmál, umhverfismál og vöktun náttúruvár. Gögnin endurspegla jafnframt þróun og breytingar á náttúrufari landsins í gegnum tíðina, enda byggja þau á rannsóknum sem ná yfir langt tímabil.
Flest kort eru gefin út í kortasjám en í Kortaglugga má skoða öll útgefin kort opinberra stofnana á landinu á einum stað. Upplýsingar um þau (e. metadata) má nálgast í lýsigagnagátt.
Kortagögn eru aðgengileg til niðurhals og eru opin öllum.
Landupplýsingar eru vistaðar í sérhæfðum gagnasöfnum og unnið er með þær í landfræðilegum landupplýsingakerfum (GIS). Helstu kerfi og hugbúnaður sem Náttúrufræðistofnun notar eru QGIS, PostGIS, ArcGIS frá Esri og Global Mapper.