Skip to main content
search

Verndargildi

Skilgreining og flokkun vistgerða er hluti af alþjóðlegum skyldum Íslendinga og verndun verðmætra vistgerða lykilatriði til að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika. Bæði innan Evrópusambandsins og á vegum Bernarsamningsins er gert ráð fyrir að tilteknar vistgerðir njóti sérstakrar verndar. Til þess að fylgja eftir skuldbindingum Íslands samkvæmt Bernarsamningnum er meðal annars kveðið á um í náttúruverndarlögum nr. 60/2013 að meta skuli verndargildi vistgerða þegar velja skal svæði á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár (B-hluta). Í framkvæmdaáætluninni skal leggja áherslu á að byggja upp skipulegt net verndarsvæða til að stuðla að því að verndarmarkmið laganna náist.

Frummat á verndargildi vistgerða fór fram samhliða vinnu við flokkun, lýsingu og kortlagningu vistgerða og er gerð grein fyrir því á staðreyndasíðum vistgerða. Við val svæða á framkvæmdaáætlun B-hluta náttúruminjaskrár, þar sem skilgreind voru verndarsvæði fyrir vistgerðir, fuglategundir og jarðminjar, var verndargildi vistgerða metið út frá fleiri þáttum. Nánar um mat á verndargildi og í fjölritinu Vistgerðir á Íslandi (bls. 14–16).