Skip to main content
search

Mat á verndargildi

Frummat á verndargildi vistgerða fór fram samhliða vinnu við flokkun, lýsingu og kortlagningu vistgerða en við val svæða á framkvæmdaáætlun B-hluta náttúruminjaskrár var verndargildi vistgerða metið út frá fleiri þáttum.

Við frummat á verndargildi hverrar vistgerðar var beitt svipuðum aðferðum og notaðar voru við fyrstu vistgerðarannsóknirnar á miðhálendinu og gefin voru út í skýrslu Náttúrfræðistofnunar NÍ-09008, Vistgerðir á miðhálendi Íslands: flokkun, lýsing og verndargildi. Verndarviðmið voru þó mun færri, eða fjögur, og einungis notuð þau sem hægt var að mæla eða leggja mat á með sæmilegri nákvæmni en þau voru; fágæti vistgerðar (e. rarity), tegundaauðgi (e. species richness) (hér notað sem staðgöngumat fyrir fjölbreytni), gróska (e. productivity) sem er mælikvarði á framleiðni og kolefnisinnihald í jarðvegi (e. soil carbon content).

Gefnar voru fjórar einkunnir fyrir hvert viðmið fyrir hverja vistgerð; lágt verndargildi (1), miðlungs (3), hátt (6) og mjög hátt (10). Samanlögð einkunn fyrir öll verndarviðmið ákvarðar innbyrðis röðun vistgerða og hlutfallslegt verndargildi þeirra. Ekki var unnt að meta alla þessa þætti í öllum meginflokkunum þremur, þ.e. á landi, í ferskvatni og í fjöru. Verndargildi vistgerða er því ekki sambærilegt nema innan flokka. Verndargildi vistgerða á jarðhitasvæðum er auk þess ekki sambærilegt við aðrar landvistgerðir þar sem aðferðir voru ólíkar, t.d. var ekki mögulegt að meta grósku né magn kolefnis í jarðvegi á jarðhitasvæðum.

Verndarviðmið Landvistgerðir aðrar en jarðhitavistgerðir Jarðhitavistgerðir Ferskvatnsvistgerðir Fjöruvistgerðir
Fágæti Reiknað út frá flatarmáli vistgerðar og hversu dreifð hún er Reiknað út frá flatarmáli vistgerðar á þeim svæðum sem rannsökuð voru Reiknað út frá flatarmáli  stöðuvatna (km2) og heildarlengd (km) straumvatna Reiknað út frá flatarmáli vistgerðar og hversu dreifð hún er
Tegundaauðgi Reiknuð út frá fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna Reiknuð út frá fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna Reiknuð út frá fjölda tegunda æðplanta, kransþörunga og mosa, annars vegar í vistgerðum stöðuvatna og hins vegar straumvatna Reiknuð út frá fjölda tegunda (þörungar, marhálmur, liðormar, sniglar o.fl.) Einnig var tekið tillit til fuglalífs.
Gróska Metið sem margfeldi af hæð gróðurs og þekju æðplantna Ekki metið Metið út frá gróðurþekju Ekki metið
Kolefnisforði Kolefnisforði í jarðvegi reiknaður sem margfeldi af C% og jarðvegsdýpt Ekki metið Ekki metið Ekki metið

Verndargildi landvistgerða utan jarðhitasvæða

Fágæti landvistgerða var metið með því að taka mið bæði af heildarflatarmáli vistgerðar og hversu dreifð hún er. Verndargildi var reiknað út frá fjölda reita (10x10 km) þar sem vistgerð fannst og heildarflatarmáls vistgerðar.

Flatarmál km2 0-100 >100–1.000 >1.000-10.000 >10.000
Fjöldi reita m. tegund 0-300 100-600 200-900 300-1.200
Verndargildi 10 6 3 1

Þannig fengu þær vistgerðir sem voru minnstar að flatarmáli (0-100 km2) og jafnframt fundust í fáum reitum (0-300) verndargildið 10 o.s.frv.

Tegundaauðgi. Fundinn var meðalfjöldi tegunda æðplantna, mosa og fléttna fyrir hverja vistgerð og fyrir hvern tegundahóp reiknuð hlutfallsleg (%) tegundaauðgi miðað við tegundaríkustu vistgerðina. Þá var fundin meðaltegundaauðgi í hverri vistgerð fyrir alla tegundahópana þrjá æðplöntur, mosa og fléttur. Verndargildi var raðað þannig eftir hlutfalli tegunda; 1 (≤25%), 3 (>25-50%), 6 (>50-75%) og 10 (>75%).

Gróska var reiknuð út fyrir hverja vistgerð sem margfeldi af meðalgróðurhæð (cm) og meðalþekju (%) æðplanta. Verndargildi var síðan gefið samkvæmt eftirfarandi tölum; 1 (≤100), 3 (>100-500), 6 (500-1600) og 10 (>1600).

Kolefnisforði í jarðvegi var metin með því að margfalda saman meðaltal kolefnismagns í jarðvegi (% þurrefnis í efstu 10 cm jarðvegs) og meðaljarðvegsdýpt í hverri vistgerð. Verndargildi var síðan gefið samkvæmt eftirfarandi tölum; 1 (≤100), 3 (>100-500), 6 (>500-1000) og 10 (>1000).

Verndargildi jarðhitavistgerða

Verndargildi jarðhitavistgerðanna fjögurra var metið samkvæmt tveimur viðmiðum, þ.e. fágæti og tegundaauðgi.

Fágæti var metið út frá flatarmáli vistgerða á þeim svæðum þar sem mælingar voru gerðar. Reiknað var út hlutfall vistgerðar út frá heildarflatarmáli vistgerðanna fjögurra. Verndargildi var metið samkvæmt eftirfarandi; 6 (<50%) og 10 (≥50%).

Tegundaauðgi var metin út frá tegundafjölda æðplantna, mosa og fléttna í hverri vistgerð. Reiknað var út hlutfall tegunda í hverjum hópi út frá heildarfjölda tegunda innan hvers og eins. Verndargildi  var metið samkvæmt eftirfarandi hlutfalli; 1 (≤25%), 3 (>25-50%), 6 (>50-75%) og 10 (≥75%).

Verndargildi vatnavistgerða

Fágæti var reiknað út sem sem hlutfall hverrar vistgerðar af heildarflatarmáli stöðuvatna (km2) eða heildarlengd (km) straumvatna samkvæmt eftirfarandi; 10 (≤5% af heildarflatarmáli eða heildarlengd), 6 (>5-10%), 3 (>10-20%) og 1 (>20%).

Tegundaauðgi í stöðuvötnum var metin sem hlutfall af tegundaríkustu vistgerðinni (æðplöntur, kransþörungar og mosar). Það sama var gert fyrir straumvötn þar sem þessar upplýsingar lágu fyrir. Ekki var unnt að meta tegundauðgi í öllum vistgerðum vegna skorts á upplýsingum. Verndargildi var metið samkvæmt eftirfarandi hlutfalli: 1 (≤25%), 3 (>25-50%), 6 (>50-75%) og 10 (>75%).

Gróska í ferskvatnsvistgerðum var metin sem hlutfall af þeirri vistgerð þar sem gróðuþekja var mest, annars vegar í stöðuvötnum (gróðurþekja 55%) og hins vegar í straumvötnum (gróðurþekja 51%). Ekki var unnt að meta grósku í öllum vistgerðum vegna skorts á upplýsingum. Verndargildi var síðan gefið samkvæmt eftirfarandi hlutfalli; 1 (≤25% af hæstu gróðurþekju), 3 (>25-50%), 6 (>50-75%) og 10 (>75%).

Verndargildi fjöruvistgerða

Fágæti fjöruvistgerða var metið með því að taka mið bæði af heildarflatarmáli og hversu dreifð vistgerðin er. Verndargildi var reiknað út frá fjölda reita (10x10 km) þar sem vistgerð fannst og heildarflatarmáls vistgerðar.

Flatarmál km2 0-10 0,1–100 1-1.000 10-1000
Fjöldi reita m. tegund 0-20 >20-80 >80-140 >140-180
Flatarmál km2 - Sérstæð fjörusvæði 0-30.000 >30.000-100.000 >100.000-300.000 >300.000
Fjöldi reita m. tegund - Sérstæð fjörusvæði 0-12 >12-30 >30-50 >50-70
Verndargildi 10 6 3 1

Sérstæð fjörusvæði (e. habitat complexes) voru metin sérstaklega vegna þess að þau geta innihaldið margar vistgerðir og eru því á miklu stærri kvarða en aðrar vistgerðir.

Tegundaauðgi í fjöruvistgerðum var metið sem hlutfall af tegundaríkustu vistgerðinni (þörungar, marhálmur, liðormar, sniglar o.fl.). Verndargildi var síðan gefið samkvæmt eftirfarandi hlutfalli; 1 (≤25%), 3 (>25-50%), 6 (>50-75%) og 10 (>75%).

Endurmat á verndargildi vistgerða

Við val svæða á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár árið 2018 var verndargildi vistgerða endurmetið út frá fleiri þáttum en gert var í frummati, þar sem verndargildi vistgerða og aðsteðjandi ógnir voru lögð til grundvallar að valinu. Aðferðum við mat á verndargildi er lýst í skýrslu Náttúrufræðistofnunar NÍ-19008, Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár: svæðaval og ávinningur verndar. 

Til að treysta grunn fyrir mat á verndargildi vistgerða var, auk frummats, notast við fjögur önnur viðmið. Í fyrsta lagi hvort vistgerð er á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem taldar eru þurfa sérstaka vernd, í öðru lagi fjölbreytni fuglalífs í vistgerð, í þriðja lagi mikilvægi vistgerðar fyrir sterka stofna fugla og í fjórða lagi mikilvægi vistgerðar fyrir tegundir æðplantna sem eru á válista. Fyrir hvert viðmið var gefin einkunn samkvæmt skalanum 1, 3, 6 og 10, eins og í frummatinu. Fyrir öll viðmið voru einkunnirnar fjórar notaðar nema fyrir vistgerðir á lista Bernarsamnings.  

Vistgerðir á lista Bernarsamnings

Vistgerðir á lista Bernarsamnings fengu einkunnirnar 3 og 6, en aðrar sem ekki voru á listanum einkunnina 0. Landvistgerð fékk einkunnina 6 ef hún fannst í innan við 10% landsreita eða ef heildarflatarmál á landinu var undir 200 km2. Fyrir fjöruvistgerð var einkunnin 6 miðuð við að hún fyndist í innan við 10% fjörureita (378) eða að heildarflatarmál hennar væri undir 10 km2. Fyrir vatnavistgerðir var miðað við 200 km2 flatarmál vistgerða stöðuvatna en 5.000 km heildarlengd fyrir straumvötn. Væru þessi gildi undir viðmiðum fékk vistgerðin einkunnina 6, en 3 væru þau yfir.

Gildi vistgerðar Einkunn Lýsing
Miðlungs 3 Land: >10% af landsreitum eða flatarmál >200 km2 
Fjara: >10% fjörureita eða flatarmál >10 km2 
Vatn: flatarmál >200 km2 eða >5.000 km
Hátt 6 Land: <10% af landsreitum eða flatarmál <200 km2 
Fjara: <10% fjörureita eða flatarmál <10 km2 
Vatn: flatarmál <200 km2 eða <5.000 km

Fjölbreytni fuglalífs í vistgerð

Lagt var mat á fjölbreytni fuglalífs fyrir hverja vistgerð þar sem byggt var á fjölda tegunda, (þ.e. tegundaauðgi), sem nýtir hverja vistgerð að jafnaði. Matið byggðist á sniðtalningum þar sem þéttleiki verpandi mófugla var mældur og flokkaður (sjá Fjölrit Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi). Einnig var byggt á margvíslegum öðrum upplýsingum um dreifingu og nýtingu annarra fuglategunda á öllum árstímum. Eru þessar upplýsingar dregnar saman á staðreyndasíðum um einstakar vistgerðir í ritinu Vistgerðir á Íslandi. Fjölbreytni fuglalífs var skipt í fjóra flokka: fábreytt, miðlungs, mikil og mjög mikil. Þeim var umbreytt í töluleg gildi, 1, 3, 6 og 10.

Fjöbreytni fuglalífs Einkunn Lýsing
Fábreytt 1 Örfáar eða jafnvel engar fuglategundir nýta vistgerðina
Miðlungs 3 Nokkrar (allt að 5) fuglategundir nýta vistgerðina í umtalsverðum mæli
Mikil 6 Margar (allt að 10) fuglategundir nýta vistgerðina í umtalsverðum mæli
Mjög mikil 10 Mjög margar fuglategundir (≥10+) nýta vistgerðina í umtalsverðum mæli

Sterkir stofnar í vistgerð

Mikilvægi vistgerða fyrir sterka fuglastofna var metið en hér er átt við ábyrgðartegundir Íslands. Með ábyrgðartegund er miðað við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum. Matið byggði á talningum eða öðrum fyrirliggjandi gögnum og var skipt í fjóra flokka: ekkert/lítið, nokkuð, töluvert, mikið. Alls teljast 25 tegundir sem ábyrgðartegundir Íslands.

Mikilvægi Einkunn Lýsing
Fábreytt 1 Engin ábyrgðartegund nýtir vistgerðina svo orð sé á gerandi
Miðlungs 3 Einhver ábyrgðartegund nýtir vistgerðina í nokkrum mæli
Mikil 6 Ein eða fleiri ábyrgðartegundir nýta vistgerðina í miklum mæli
Mjög mikil 10 Ein eða fleiri ábyrgðartegundir nýta vistgerðina í mjög miklum mæli og hægt er að tala um lykilbúsvæði fyrir viðkomandi tegundir

Vistgerðir mikilvægar æðplöntum á válista

Mikilvægi vistgerðar fyrir tegundir æðplantna sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2018 var metið. Hverri tegund var skipað í eina vistgerð eða vistlendi samkvæmt tiltækum upplýsingum um búsvæði viðkomandi tegundar. Síðan var flatarmáli vistgerðar deilt í fjölda tegunda. Þannig fengu litlar vistgerðir með margar tegundir á válista hæstu einkunn, en vistgerðir með engar tegundir lægstu. Vegna óvissu um skipan tegunda í vistgerð voru einungis teknar inn vistgerðir þar sem líkur voru á að tvær eða fleiri tegundir væri að finna. Flestar tegundir á válista voru í landvistgerðum, tvær í vatnavistgerðum og ein í fjöruvistgerðum.

Mikilvægi Einkunn Lýsing
Lítið 1 Engar tegundir taldar finnast í vistgerð
Miðlungs 3 <0,01 tegund á km2 vistgerðar
Mikið 6 0,01–0,1 tegund á km2 vistgerðar
Mjög mikið 10 >1 tegund á km2 vistgerðar

Verndargildi vistgerða – heildareinkunn

Samanlögð einkunn framangreindra fimm viðmiða, þ.e. i) frummat verndargildis vistgerða sett fram í vistgerðaskýrslu, ii) vistgerð í Bernarsamningi, iii) fjölbreytni fuglalífs, iv) undirstaða sterkra fuglastofna og v) vistgerðir mikilvægar æðplöntutegundum á válista, var notuð til að ákvarða verndargildi og innbyrðis röðun vistgerða. Þar sem aðferðir og viðmið voru mismunandi milli land-, fjöru- og vatnavistgerða var þeim haldið aðgreindum og var raðað innbyrðis innan hópanna þriggja. Með hækkandi heildartölu eykst reiknað verndargildi vistgerða.