Borkjarnasafn
Náttúrufræðistofnun hefur það hlutverk að varðveita borkjarna sem falla til við jarðboranir víða um land við framkvæmdir eða í rannsóknaskyni. Borkjarnar og borsvarf veita innsýn í þann hluta berggrunnsins sem ekki er sýnilegur á yfirborði jarðar og eru nauðsynleg gögn við jarðvísindalegar rannsóknir, hvort sem um ræðir grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir við undirbúning mannvirkjagerðar eða nýtingar náttúruauðlinda.
Safnið geymdi í lok árs 2024 um 100 kílómetra af borkjörnum auk borsvarfs úr borholum sem samtals eru yfir 470 km að lengd. Telur gagnagrunnur safnsins nú tæplega 11 þúsund kassa af borkjörnum úr um 1.800 borholum, sem og um 5.000 bakka af borsvarfi úr um 2.300 borholum. Í safninu er einnig talsverður fjöldi sýna sem tekin hafa verið úr borkjörnum og varðveitt aðskilin frá meginhluta kjarnanna.
Í safninu eru meðal annars varðveittir borkjarnar úr rannsóknarborunum í Surtsey árin 1979 og 2017 sem varpa merku ljósi á innri þróun eyjarinnar eftir gos, sem og kjarni úr 2 km djúpri rannsóknaholu sem boruð var í Reyðarfirði árið 1978. Einnig er í safninu mikill fjöldi kjarna sem boraðir voru vegna jarðgangnagerðar, virkjanaframkvæmda og annarra orkurannsókna.

Aðstaða
Borkjarnasafnið er staðsett á Breiðdalsvík í 990 m2 húsi í hjarta bæjarins og hefur þar verið innréttuð vinnslustofa þar sem hægt er að skoða, mynda og taka sýni úr safnkostinum.
Safnið er starfrækt í nánu samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Umsjónarmaður borkjarnasafnsins er jafnframt verkefnisstjóri við rannsóknasetrið og gestir sem nýta sér rannsóknaaðstöðu á safninu geta fengið skrifstofuaðstöðu á setrinu.
Gagnagrunnur
Safnkosturinn er skráður í gagnagrunn Náttúrufræðistofnunar. Hægt er að skoða yfirlit yfir borkjarna í gagnagrunninum í jarðfræðikortasjá stofnunarinnar. Einnig er hægt að nálgast sömu upplýsingar í gegnum WFS-þjónustu (sjá leiðbeiningar um hvernig nálgast megi þær gegnum opna hugbúnaðinn QGIS ).
Sýnataka til rannsókna
Heimilt er að taka sýni úr borkjörnum og borsvarfi safnsins til rannsókna og greiningar. Um það gilda reglur um gripalán og sýnatöku sem er ætlað að stuðla að jafnvægi milli nýtingar og varðveislu kjarna og svarfs og auka varðveislugildi safnkostsins.
Einnig er heimilt að fá hluta safnkostsins, til dæmis heila borkjarna, að láni til kennslu, rannsókna eða annarra sérhæfðra verkefna. Um slík lán gilda reglur Náttúrufræðistofnunar um gripalán og sýnatöku.
Óskum um sýni úr borkjörnunum til rannsókna skal beina til umsjónarmanns borkjarnasafnsins. Hægt er að óska eftir að fá sýni send eða koma á safnið til að taka eigin sýni.
Skil á borkjörnum og borsvarfi til safnsins
Borkjarnasafnið tekur á móti borkjörnum og borsvarfi til varðveislu í safnkostinum. Nánari leiðbeiningar fyrir aðila sem vilja gefa slík sýni í safnið má nálgast hjá umsjónarmanni.
