Skipulag grunngerðar
Til að uppfylla skilyrði laga um grunngerð landupplýsinga þurfa opinberar aðilar að fylgja viðurkenndum stöðlum og verklagi við öflun, skipulag og miðlun gagna.
Öflun gagna
Við öflun landupplýsinga ber opinberum aðilum að tryggja að gögnin séu opin almenningi. Gögn sem aflað er fyrir opinbert fé skulu ekki vera háð hamlandi notendaskilmálum.
Notendaskilmálar
Notendaskilmálar skulu vera eins opnir og kostur er þannig að þeir hamli ekki nýtingu opinberra landupplýsinga. Mikilvægt er að skilgreina og birta skilmálana á aðgengilegan hátt (sjá um Opin gögn Náttúrufræðistofnunar). Opinberir aðilar eru hvattir til að nýta eigin gögn í starfsemi sinni og sýna þannig gott fordæmi.
Skipulag gagna
Landupplýsingar opinberra aðila skulu vera vel skipulagðar, hvort sem þær eru vistaðar í skráarformi eða gagnagrunni. Til að tryggja aðgengi og gegnsæi þarf að fylgja hverju gagnasafni lýsing á uppbyggingu og innihaldi þess, það er lýsigögn.
Lýsigögn
Lýsigögn veita upplýsingar um sjálf gögnin, svo sem uppruna, gæði, eigendur, staðsetningu og notkunarskilmála. Opinberum aðilum ber að skrá lýsigögn í Lýsigagnagátt Náttúrufræðistofnunar og geta þeir fengið aðstoð frá starfsfólki stofnunarinnar við þá skráningu. Lýsiggögn eru óaðskiljanlegur hluti miðlunar landupplýsinga.
Miðlun
Miðlun landupplýsingagagna fer fram á tvennan hátt:
- Í gegnum skoðunarþjónustur þar sem hægt er að skoða gögn opinberra aðila á korti og fá aðgang að lýsigögnum þeirra. Margar stofnanir og sveitarfélög reka eigin kortasjár sem miðla einungis þeim gögnum sem nýtast þeirra notendum. Í Kortaglugga Náttúrufræðistofnunar eru gögn hins vegar sameinuð á einum stað og veittur aðgangur að úrvali opinberra landupplýsinga.
- Í gegnum niðurhalsþjónustu þar sem hægt er að skoða og sækja sjálf landupplýsingagögnin til frekari notkunar. Opinberir aðilar geta rekið eigin niðurhalsþjónustur eða nýtt sér þjónustu Náttúrufræðistofnunar. Til að nýta gögnin þarf hugbúnað fyrir landupplýsingakerfi. Landfræðilegir grunnar, svo sem hæðarlínur og vatnafar, og útlit korta (litir, tákn og fleira) fylgja ekki með gögnunum í niðurhali.