Leyfisveitingar
Útflutningsleyfi fyrir náttúrugripi
Samkvæmt lögum nr. 54/2024 um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur er óheimilt að flytja náttúrugripi úr landi nema með leyfi stofnunarinnar. Stofnunin annast útgáfu slíkra leyfa og getur sett skilyrði hverju sinni. Sama á við um örverur sem eiga uppruna sinn á jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra. Stofnuninni er falið að meta hvort náttúrugripur teljist það sérstakur eða fágætur að hann hafi svo mikið gildi fyrir Ísland að rétt sé að líta á hann sem ,,þjóðargersemi“ sem ekki skuli heimila að flytja úr landi. Dæmi um slíka gripi eru til dæmis fágætar steindir og steingervingar.
Gjald er innheimt vegna úgáfu útflutningsleyfa fyrir rannsóknarsýni og vegna útflutningsleyfa til almennings fyrir minjagripi og uppstoppuð dýr, samkvæmt gjaldskrá Náttúrufræðistofnunar.
Sótt er um leyfi með því að fylla út eyðublað (pdf) og senda formlegt erindi á netfangið natt@natt.is.
Fuglamerkingaleyfi
Náttúrufræðistofnun ber samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, að sjá um fuglamerkingar og hefur stofnunin ein heimild til að láta merkja villta fugla á Íslandi.
Fuglamerkingar eru stundaðar af fuglaáhugamönnum og fuglafræðingum sem fengið hafa tilskilið merkingaleyfi. Almennt merkingaleyfi veitir heimild til að handsama villta fugla, merkja þá með málmmerkjum og sleppa að merkingu lokinni. Allar aðrar merkingar eru óheimilar nema með sérstöku viðbótarleyfi. Merkingamenn taka að sér merkingar sem sjálfboðaliðar en fá jafnframt aukin réttindi til að umgangast villta fugla.
Nánari upplýsingar má fá hjá stofnunni með því að senda tölvupóst á netfangið fuglamerki@natt.is.
Nánar um fuglamerkingar.