Túnsúra (Rumex acetosa)

Útbreiðsla

Algeng um allt land frá láglendi og upp í 800–900 m hæð. Hæst er hún skráð í 1050 m hæð í Skjálfandafljótsdrögum við Tungnafellsjökul.

Almennt

Sýran í plöntunni ver túnsúruna fyrir sniglum og slíkum meindýrum en búfénaður sækir aftur á móti í hana og þaðan hefur hún líklega fengið nöfnin lambasúrur og lambablöðkur. Hins vegar er nafnið hundasúra hvað mest notað af almenningi þó í bókum sé nafnið túnsúra notað af grasafræðingum (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Túnsúra er mjög góð við bjúg, hún er talin örva og styrkja lifrina. Hún er góð við lystarleysi, hægðatregðu og gyllinæð svo fátt eitt sé nefnt (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Túnsúra inniheldur m.a. oxalsýru, antrakínóna, barksýrur og vítamín á borð við A-, B- og C-vítamín (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Graslendi og tún, vallendi, mólendi og gróðursælar lautir, sækir í áburðaríka jörð (Hörður Kristinsson 2010).

Lýsing

Fjölær, meðalhá planta (20–40 sm) með örlaga blöð og mörg blóm í rauðleitum, aflöngum, blómklösum á stöngulendum. Blómgast í maí–júní.

Blað

Stöngullinn gáraður með alllöngum himnukenndum slíðrum um blaðfótinn, skertum í endann með oddmjóum flipum. Blöðin eru stakstæð, fjaðurstrengjótt, þau neðri stilkuð, blaðkan er örvarlaga með niðurvísandi eyrum, 2-8 sm á lengd en 1-2,5 sm á breidd.

Blóm

Blómin eru mörg saman í klasaleitum blómskipunum út frá blaðöxlunum eða blaðstæðum stöngulsins, einkynja í sérbýli. Blómin eru leggjuð, kvenblómin með þrem niðurvísandi blómhlífarblöðum og þrem uppréttum sem lykja um eina, þrístrenda frævu. Blómhlífin er rauð eða grænleit. Út frá frævunni standa þrjú, marggreind, hvít eða bleik fræni. Á karlplöntunum eru sex blómhlífarblöð, öll upprétt, ýmist græn, rauðbrydduð eða alrauð, 2–3 mm á lengd, himnurend, þau ytri mjórri og aflöng, þau innri breiðari og egglaga. Fræflar eru sex, frjóhirslur dökkrauðar, allstórar og fylla út í blómhlífina, fullar af gulhvítum frjókornum.

Aldin

Þrístrend hneta sem innri blómhlífarblöðin lykja um.

Greining

Líkist helst hundasúru en túnsúra þekkist best á blaðlögun, hornin neðst á blöðkunni vísa niður en eru ekki útstæð eins og á hundasúru. Hundasúran vex helst þar sem jarðvegur er sendinn, á melum og í vegköntum, og myndar þar oft rauðleitar breiður.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir. 1998. Íslenskar lækningjurtir: söfnun þeirra, notkun og áhrif (2. útg.). Íslensk náttúra IV. Mál og menning, Reykjavík.

Ágúst H. Bjarnason og Eggert Pétursson. 1994. Íslensk flóra með litmyndum. Forlagið, Reykjavík.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Súruætt (Polygonaceae)
Tegund (Species)
Túnsúra (Rumex acetosa)