Brenninetla (Urtica dioica)

Útbreiðsla

Er án efa aðflutt af manna völdum snemma á öldum, enda hafa leifar af henni fundist í gömlum rústum á Bergþórshvoli. Hún hefur verið ræktuð til lækninga og oft verið flutt á milli garða, en dreifist lítið af sjálfsdáðum hér á landi. Stafar það meðal annars af því, að oft flytja menn aðeins annað kynið, og dæmi eru um t.d. á Fljótsdalshéraði, að þar sáust aðeins karlplöntur.

Almennt

Hún hefur brennihár sem eru stökk og brotna ef komið er við þau, og stingst brotstúfurinn auðveldlega gegn um húð ef jurtin er snert, og kemst þá safi hársins inn undir húðina og svíður undan vökvanum.

Nytjar

Lítið eitt hefur brenninetlan verið nytjuð, svo sem í gerði umhverfis matjurtagarða, einnig til að vinna bastþræði, eða til lækninga.

Búsvæði

Slæðingur eða ræktuð. Vex eingöngu við bæi eða eyðibýli.

Lýsing

Fjölær, hávaxin planta (40–120 sm) með brennihár um alla plöntuna, blómstrar örsmáum, einkynja blómum í hnúskóttum blómskipunum. Blómgast í júlí.

Blað

Skriðull jarðstöngull, ferstrendur, djúpgáróttur. Plantan er alsett grófum brennihárum. Blöðin gagnstæð, 5–10 sm löng og 1,5–6 sm breið, gróftennt, stilkuð. Blaðkan með gisstæðum brennihárum, hjartalaga eða egglaga, gróftennt, ýmist með ávölum, þverum eða hjartalega grunni, dregin fram í odd. Myndar nokkuð samfelldar, þéttar breiður sem geta haldið velli lengi á sama stað, einkum í frjóum, áburðarríkum jarðvegi.

Blóm

Blómin örsmá, einkynja í sérbýli á mismunandi einstaklingum, í samsettum, aflöngum, hnúskóttum blómskipunum sem oft hanga niður úr blaðöxlunum. Blómhlífin eru fjórdeild, grágræn á litinn. Blómhlífarblöðin fjögur, um 1 mm á lengd, grágræn. Fjórir fræflar í karlblómunum en ein fræva í kvenblómunum.

Greining

Líkist smánetlu sem er minni og vex einkum í fjörum og görðum. Smánetla er með tvíkynja blóm og minni og kringlóttari blöð.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Netluætt (Urticaceae)
Tegund (Species)
Brenninetla (Urtica dioica)