Þyrnirós (Rosa pimpinellifolia)

Útbreiðsla

Sjaldgæf á Íslandi, hún hefur fundist á nokkrum stöðum frá Austfjörðum, suður um og norður til Vestfjarða (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Búsvæði

Gras- og blómlendi, jafnvel í grýttum fjallshlíðum (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Fremur lágvaxinn rósarunni (30–70 sm) með þéttum þyrnum og hvítum rósum. Blómgast í júlí.

Blað

Blöðin fjöðruð, oftast með þrem til fjórum blaðpörum og endablaði. Smáblöðin sporbaugótt, reglulega tennt, 1–2 sm á lengd. Stöngullinn þétt settur afar misstórum þyrnum, frá 1 mm upp í 8 mm á lengd. Smáþyrnar þéttir, gisstæðari grófir þyrnar á milli (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru 3–5 sm í þvermál. Krónublöðin hvít, 1,5–2 sm löng. Bikarfliparnir mjóir, odddregnir, tenntir, 1–1,5 sm á lengd. Margir gulir fræflar. Nokkrar frævur í miðju blóminu, loðnar (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið er svokallað hjúpaldin, hnöttótt staup, blárautt að lit, 7–8 mm í þvermál, holt innan með smáum hnetum í botninum (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist helst á glitrós en þyrnirós þekkist á hvítum blómum, minni axlablöðum og þéttum, misstórum þyrnum.

Válistaflokkun

VU (tegund í nokkurri hættu)

ÍslandHeimsválisti
VU NE

Forsendur flokkunar

Þyrnirós flokkast sem tegund í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði tegundarinnar er takmarkað, u.þ.b. 7 km2.

Viðmið IUCN: D2

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.
D2. Restricted area of occupancy or number of locations with a plausible future threat that could drive the taxon to CR or EX in a very short time.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Þyrnirós er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Válisti 1996: Þyrnirós er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Verndun

Þyrnirós er friðuð samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Rósaætt (Rosaceae)
Tegund (Species)
Þyrnirós (Rosa pimpinellifolia)