Vatnamynta (Mentha aquatica)

Útbreiðsla

Mjög sjaldgæf á Íslandi, aðeins fundin á þrem stöðum. Talið var að vatnamyntan hafi borist til landsins snemma á síðustu öld með þýskum garðyrkjumanni sem kom sér upp ræktunaraðstöðu á Reykjanesi við Djúp. Síðar hefur vatnamyntan verið flutt þaðan bæði að Reykhólum og að Svanshóli í Bjarnarfirði. Aðrar heimildir að vestan benda hins vegar til að vatnamyntan hafi verið komin þangað fyrr.

Búsvæði

Vex eingöngu í volgum jarðvegi við laugar.

Lýsing

Fjölær, fremur hávaxin jurt (30–60 sm) með sterkum ilm, rauðleitum stilk og þykkum, dökkum blöðum. Blómin eru rauðbleik, saman í kolli.

Blað

Skriðul jurt með uppsveigðum, blómstrandi greinum. Stöngull ferstrendur, uppréttur og grófur, ógreindur eða greindur, rauðleitur, oftast dúnhærður með hvítum, aðlægum hárum. Blöð krossgagnstæð, stilkuð, þykk, hærð, ýmist græn með rauðleitum strengjum eða öll meir eða minna rauðmenguð, stuttleggjuð, breiðegglaga eða hjartalaga, hvasstennt eða með snubbóttum tönnum. Jurtin hefur sterkan ilm (Hörður Kristinsson, Lid og Lid 2005).

Blóm

Blóm vatnamyntunnar rauðbleik og minna á blóm blóðbergsins. Þau standa þétt saman í aflöngum kolli og mynda stundum viðbótarhvirfingar neðar. Blómin eru 5-7 mm á lengd, krónan fjórflipuð, lítið eitt loðin. Bikarinn er trektlaga, 3-4 mm á lengd, 5-tenntur, með oddmjóum sepum, hærður.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Varablómaætt (Lamiaceae)
Tegund (Species)
Vatnamynta (Mentha aquatica)