Ferlaufungur (Paris quadrifolia)

Útbreiðsla

Ferlaufungur er sjaldgæfur en einna algengastur á Suðvesturlandi, Vestfjörðum og Þingeyjarsýslu. Aðeins er vitað um hann á láglendi neðan 300 m.

Almennt

Líffræði

Aldinið er eitrað (Hörður Kristinsson 2010).

Skaðsemi

Aldinið er eitrað (Hörður Kristinsson 2010).

Búsvæði

Vex helst í skóglendi, hraunsprungum og innan um stórvaxinn gróður í friðuðum hólmum.

Lýsing

Meðalhá planta (15–35 sm) með fjórum, stórum, kransstæðum blöðum og myndar svart ber. Blómgast í júlí.

Blað

Af láréttum jarðstöngli vaxa uppréttar hliðargreinar, hver um sig með fjórum, kransstæðum blöðum. Blöðin eru oddbaugótt-öfugegglaga, 5-8 sm löng og 3-4 sm á breidd ef þau ná fullri stærð, bogstrengjótt, svo til heilrend (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Eitt fjórdeilt blóm á toppi hverrar hliðargreinar. Bikarblöðin lensulaga, oddmjó, græn, 2–3 sm á lengd og 4–5 mm breið. Innri blómhlífarblöðin talsvert styttri, gulgræn og striklaga. Fræflar átta með löngum, gulum frjóhirslum. Frævan dökkfjólublá (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Berið dökkfjólublátt í fyrstu en verður enn dekkra við þroskun. Eitrað (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Verndun

Ferlaufungur er friðaður samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda. Hann er þó ekki á válista.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Ferlaufungsætt (Melanthiaceae)
Tegund (Species)
Ferlaufungur (Paris quadrifolia)