Fölvastör (Carex livida)

Útbreiðsla

Sjaldgæf stör en er einna algengust utan til á Fljótsdalshéraði og við norðanverðan Faxaflóann, sjaldséð annars staðar. Vex mest á þrem svæðum, vestur á Mýrum og sunnanverðu Snæfellsnesi, á Fljótsheiði og grennd á Miðnorðurlandi, og í blánum við utanvert Fljótsdalshérað. Stakir fundarstaðir eru við Móberg og Melanes á Rauðasandi, á hálsinum milli Vatnsdals og Gljúfurár í Húnaþingi, við Fell í Biskupstungum, í Kappastaðaflóa í Sléttuhlíð og Hofsflóa á Höfðaströnd, Skag., og austan við Dráttarhrygg í Þistilfirði. Fölvastörin vex nær eingöngu á láglendi, hæstu fundarstaðir hennar eru á Fljótsheiði á Norðurlandi í um 250–330 m hæð, m.a. við Hrappstaðaselstjörn.

Búsvæði

Vex eingöngu í rennblautum flóum sem dúa undan fótum manns. Venjulega vex hún aðeins á litlum blettum, þar sem flóarnir eru blautastir. 

Lýsing

Meðalhá stör (15–25 sm) með eitt til tvö upprétt, stuttleggjuð, fáblóma kvenöx og eitt karlax í toppinn. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Blöðin blágræn, kjöluð og samanbrotin (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Eitt til tvö upprétt, stuttleggjuð, fáblóma kvenöx og eitt karlax í toppinn. Axhlífar brúnar með grænni miðtaug, snubbóttar. Hulstrið ljósblágrænt eða gulgrænt, trjónulaust. Þrjú fræni (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Líkist belgjastör en fölvastör hefur þéttstæðari, blómfærri kvenöx og ljósari, trjónulaus hulstur.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Stararætt (Cyperaceae)
Tegund (Species)
Fölvastör (Carex livida)