Vallarfoxgras (Phleum pratense)

Útbreiðsla

Innflutt grastegund sem lengi hefur verið ræktuð í sáðsléttum, algeng í sáðsléttum og túnjöðrum um allt land. Vex einkum á láglendi upp að 500 m hæð, en hefur verið sáð umhverfis fjallaskála allt upp í 700 m hæð, t.d. í Jökulheimum og Laugafelli.

Búsvæði

Tún og sáðsléttur, slæðingur við bæi (Hörður Kristinsson 2010).

Lýsing

Fremur hávaxin grastegund (30–100 sm) með allbreið blöð og grágrænan axpunt. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Blöðin allbreið, 4–8 mm. Slíðurhimna 2–4 mm (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Smáöxin eru einblóma, þétt saman í sívölu 3–8 sm löngu, 8–12 mm breiðu, grágrænu samaxi (axpunti). Axagnir 4–7 mm á lengd, með löngum randhárum á kilinum, mjókka snöggt ofan til og ganga fram í grænan, 1–3 mm langan odd. Blómagnir 2–3 mm á lengd. Frjóhirslur fjólubláar, hanga út úr axinu um blómgunartímann (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).

Greining

Líkist helst háliðagrasi, en smáöxin sitja fastar á axinu og dragast fram í tvöfaldan odd. Smáöxin eru lausari á axhelmunni á háliðagrasi.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Grasætt (Poaceae)
Tegund (Species)
Vallarfoxgras (Phleum pratense)