Kjallarakönguló (Segestria florentina)

Útbreiðsla

Evrópa norður til Suður-Englands, Norður-Afríka og Mið-Austurlönd, Kanaríeyjar og Madeira, innflutt til Argentínu og Ástralíu.

Ísland: Slæðingur í Reykjavík.

Lífshættir

Kjallarakönguló gerir sér túpuvef í sprungum, gjarnan í húsveggjum og undir steinum. Hún er stór og ræður vel við stóra bráð eins og yglufiðrildi, kakkalakka, býflugur og geitunga. Gaddvespurnar grípur hún um hausinn til að forðast eiturgaddinn. Kvendýrið verpir inni í túpuvefnum. Stundum drepst það þegar ungviðið klekst og er þá étið upp af afkvæmum sínum. Kynþroska frá sumri til hausts.

Almennt

Í Englandi fannst tegundin upphaflega fyrst og fremst í skipahöfnum tengd vöruinnflutningi og mörkuðum. Í seinni tíð hefur hún aukið útbreiðsluna verulega þar í landi, finnst gjarnan í nýjum húsum, situr stundum utan á húsveggjum. Annars staðar í Evrópu tengist hún einnig skipahöfnum. Hér á landi eru tvö staðfest tilfelli með innflutningi, bæði frá Reykjavík. Hið fyrra var könguló sem barst með ítölskum marmara í október 1983, hið síðara með vélum frá Hollandi í júní 2019. Ólíkleg tegund til að nema hér land.

Kjallarakönguló (15-22 mm) er stór tegund, kvendýr mun stærri en karldýr.  Hún er alsvört á lit en með áberandi sindrandi græna sterka bitkjálka sem hún getur bitið með í gegnum mannshúð, bitin sár en ekki hættuleg.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

British Arachnological Society. The Tube spiders. (http://britishspiders.org.uk/wiki2015/images/3/3f/Segestria_online.pdf)

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Roberts, M.J. 1995.  Collins field guide: Spiders of Britain & Northern Europe. HarperCollins Publishers, London. 383 bls.

Wikipedia. Segestria florentina. (https://en.wikipedia.org/wiki/Segestria_florentina)

Höfundur

Erling Ólafsson, 4. nóvember 2022.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Klóskerar (Chelicherata)
Flokkur (Class)
Áttfætlur (Arachnida)
Ættbálkur (Order)
Köngulær (Araneae)
Ætt (Family)
Túpuköngulóaætt (Segestriidae)
Tegund (Species)
Kjallarakönguló (Segestria florentina)