Sterkjubjalla (Tribolium confusum)

Útbreiðsla

Upprunnin í hitabeltislöndum, útbreidd um heim allan.

Ísland: Hefur fundist í Reykjavík, Mosfellsbæ, Borgarfirði og á Akureyri.

Lífshættir

Sterkjubjalla finnst innanhúss. Bæði fullorðnar bjöllur og lirfur nærast á mjölvöru af flestu tagi, einnig ertum, baunum, hnetum, þurrkuðum ávöxtum, kryddvörum, súkkulaði og jafnvel grasasöfn geta verið í hættu. Sterkjurík fæða er henni að skapi. Sterkjubjalla er hitakær, með kjörhita um 30°C og æxlast ekki undir 18°C. Þó hún verpi miklum fjölda eggja virðist henni ekki fjölga hratt nema hiti sé í hærra lagi. Í ræktunartilraun við stofuhita hafði bjöllunum fjölgað aðeins lítillega á einum mánuði. Tegundin er mun algengari í húsnæði þar sem unnið er með mjölvörur en í heimahúsum.

Almennt

Sterkjubjalla fannst fyrst í Reykjavík 1940 og hefur fundist alloft síðan. Síðar fannst hún í heimahúsi í Mosfellsbæ (2006), í mjölgeymslu alifuglabús í Reykholtsdal í Borgarfirði (2008) og á heimili á Akureyri (2009). Hún hefur ekki náð útbreiðslu á landinu svo teljandi sé og telst því ekki alvarlegt meindýr nema helst í tímabundnum tilvikum. E.t.v. tengist hún að einhverju leyti sýktum mjölförmum sem kunna að berast til landsins.

Sterkjubjalla er smávaxin, mjó, staflaga, rauðbrún eða kastaníurauð á lit. Hún líkist kornbjöllu (T. castaneum), þekkist frá henni á því að þrír ystu liðir fálmara aðgreinast ekki greinilega frá öðrum liðum.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 25. nóvember 2009, 18. mars 2013

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Bjöllur (Coleoptera)
Ætt (Family)
Mjölbjölluætt (Tenebrionidae)
Tegund (Species)
Sterkjubjalla (Tribolium confusum)