Galdralöpp (Bibio pomonae)

Útbreiðsla

Evrópa til nyrstu héraða Skandinavíu, sennilega fyrst og fremst í fjalllendi sunnar í álfunni, Bretland, Færeyjar; Kamtschatka.

Ísland: Láglendi um land allt, miklu algengari á landinu norðanverðu en sunnan til, sjaldgæfari á miðhálendinu; Hvítárvatn og Kjalhraun, Arnarvatnsheiði, Þjórsárver, Vesturöræfi, Veðurárdalsfjöll.

Lífshættir

Galdralöpp finnst við hin fjölbreytilegustu skilyrði, í allskyns þurrlendi, kjarrlendi og heiðalöndum, valllendi, túnum og deiglendi. Lirfurnar alast upp í jarðvegi, ekki síst rökum jarðvegi, en hafa einnig fundist við þurrari aðstæður. Nærast þar á rotnandi leifum. Flugurnar eru langalgengastar um miðbik sumars, í júlí, en hafa fundist frá miðjum júní og til loka september. Ekkert bendir til nema einnar kynslóðar á sumri en á Bretlandi eru þær sagðar vera tvær og koma þá fram tveir flugtoppar.

Almennt

Galdralöpp er mörgum kunn og þá ekki síður undir heitinu galdrafluga. Reyndar kannast þeir sem búa á landinu norðanverðu, frá Borgarfirði og norður, betur við hana en Sunnlendingar. Tegundin er nefnilega miklu algengari þar norður frá en á Suðurlandi. Sérstaklega hefur verið til þess tekið hve algeng hún er á Vestfjarðakjálka, þar sem menn hafa löngum haft orð á sér fyrir kukl og galdra. Að kenna tegundina við galdra er án efa til komið á þeim slóðum.

Galdralöpp er þekkt héðan frá fornu fari. Jón Guðmundsson lærði getur tegundarinnar í riti sínu frá um 1640 undir heitunum sálufluga og hangásfluga. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta hennar einnig í Ferðabók sinni frá 1772 og nefna hana Galdra-Flugu. Heitið tinfluga hefur einnig verið til þeirra félaga rakið. Þar með er nafngiftasagan ekki öll sögð, því tegundin hefur vakið á sér næga athygli til að hljóta staðbundin heiti. Heimildir eru um heitin öngulfluga og graðfluga austur á Héraði, blindfluga í Borgarfirði og þerrifluga í Flóanum. Síðast nefnda heitið hefur verið fært yfir á náskylda tegund á Suðurlandi, þerrilöpp (Bibio nigriventris), en þessar tvær frænkur deila í raun landinu á milli sín.

Þó galdralöpp sé fyrst og fremst rakin til norðurhluta landsins þá koma sumur þar sem hún lætur mikið að sér kveða á Suðurlandi. Er vitnað til galdrafluguára í því samhengi.

Galdralöpp er auðþekkt bæði af útliti og atferli sem rekja má hin ýmsu staðbundnu heiti til. Á góðum þurrkdögum, þegar loftuppstreymi stafar frá sólhitaðri jörð, má stundum sjá mikinn fjölda karlflugna sveima í nokkurri hæð frá jörðu, tveim metrum eða svo, jafnvel svo að minnir á fljúgandi teppi; þerrifluga. Flugið er dansandi og ómarkvisst, tinfluga, og er ekki óalgengt að flugurnar fljúgi í fésið á fólki eða festist í hári og fötum, við litla kátínu: blindfluga. Á fluginu hanga rauðir afturfæturnir áberandi niður af dýrinu; hangásfluga, öngulfluga, galdralöpp. Heitið graðfluga liggur í augum uppi. Flugurnar safnast oft fyrir í miklum fjölda á blómsveipum hvanna og þá gjarnan paraðar.

Töluverður útlitsmundur er á kynjunum. Karlflugan hefur mjórri afturbol og miklu stærri haus. Flugan er öll svört á lit nema lærliðir fótanna sem eru rauðir og áberandi á flugi. Bolur og höfuð eru hærð og er karlflugan með einkar löng hár, löng og þétt á feiknastórum augunum. Kvenflugan er snögghærðari. Fálmarar tegundarinnar eru stuttir, liðir þeirra mun breiðari en langir

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Eggert Olafsen & Biarne Povelsen 1772. Reise igiennem Island foranstaltet af Videnskapernes Sælskab i Kjøbenhavn. Sorøe. 1042 bls.

Freeman P. & R.P. Lane 1985. Bibionid ans Scatopsid flies. Diptera: Bibionidae and Scatopsidae. Handbk Ident. Br. Insects 9 (7): 1–74.

Jón Guðmundsson um 1640. Ein stutt undirrietting um Íslands adskilianlegar náttúrur. Islandica XV (1924) .

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 29. ágúst 2012

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Tvívængjur (Diptera)
Ætt (Family)
Hármýsætt (Bibionidae)
Tegund (Species)
Galdralöpp (Bibio pomonae)