Kampaskotta (Petrobius brevistylis)

Útbreiðsla
NV-Evrópa; S-Finnland, Svíþjóð, Noregur allt til 70°N, Danmörk, Þýskaland, Bretland, Írland, Færeyjar. Innflutt til norðausturhluta N-Ameríku, e.t.v. með skipaballest.
Ísland: Með ströndum í öllum landshlutum. Einnig þekkt inn til lands við fornar strandlínur, t.d. í Hornafirði og Öræfum.
Lífshættir
Kampaskotta finnst á sjávarklöppum og í fjörukömbum ofan við sjávarmörk. Þar leynist hún í sprungum og holum og er talin lifa á þörungum, fléttum og mosum sem þar vaxa. Eggjum er orpið í þröngar sprungur í steinunum og er ungviðið um þrjá og hálfan mánuð að ná kynþroskastigi. Kampaskotta er langlíf og getur lifað í allt að þrjú ár.
Almennt
Kampaskotta fannst fyrst í fjörukambi við Grindavík um 1920, eða fjörukampi eins og sagt var þar um slóðir og varð kveikjan að heitinu. Reyndar nefndi finnandinn, Bjarni Sæmundsson dýrafræðingur, hana kampafló vegna þess að hún getur stokkið. Það er hins vegar villandi að kenna tegundina við fló. Þó kjörlendi kampaskottu sé við sjóinn hefur hún einnig fundist fjarri sjó á Suðausturlandi, þ.e. á nokkrum stöðum í Hornafirði í skriðum við fjallsrætur þar sem eru fornar sjávarstrendur. Það sama á við um Salthöfða í Öræfum. Á þessum stöðum hefur kampaskotta væntanlega orðið innlyksa er land reis úr sæ í lok síðustu ísaldar og lifað það af. Í einu tilviki hefur kampaskottu orðið vart innanhúss, þ.e. í búningsklefum Sundhallar Hafnarfjarðar sem stendur við sjávarkambinn.
Útbreiðslukort

Heimildir
Answers.com. Petrobius brevistylis. http://www.answers.com/topic/petrobius-brevistylis [skoðað 7.8.2009]
Bjarni Sæmundsson 1925. Nýjungar úr dýraríki Íslands. Skýrsla um Hið ísl. náttúrufræðisfélag 1923–24: 44–48.
Erling Ólafsson 1996. Athyglisverð skordýr. Kampaskotta. Náttúrufræðingurinn 66: 26.
Geir Gígja 1933. Kampaflóin. Náttúrufræðingurinn 3: 161–164.
Högni Böðvarsson 1957. Apterygota. Zoology of Iceland III, Part 37. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 86 bls.
Tuxen, S.L. 1938. Protura und Thysanura aus Island. Vidensk. Meddr dansk natruh. Foren. 102:19–25.
Höfundur
Erling Ólafsson 14. ágúst 2009.
Biota
Biota
Lífríki (Biota)

Almennt
Elsta steingerða lífveran á jörðinni er um 3,6 milljarða ára og fyrir um 600 milljónum ára voru allar helstu megindeildir lífheimsins komnar fram, svonefnd ríki (Kingdoms): dreifkjörnungar (Procaryota), einfrumungar (Protista), sveppir (Fungi), plöntur (Plantae) og dýr (Animalia), einnig nefnd vefdýr.
Síðustu áratugina hefur skilningi á þróunarsögu lífs fleygt fram, einkum vegna rannsókna á erfðamengi tegunda og bættra tölfræðiaðferða við að leiða líkum að innbyrðis skyldleika þeirra. Líklegasta þróunarsagan er táknuð með skyldleikatré (cladogram), sem er prófanlegt líkan eða nálgun að margbrotinni atburðarás. Flokkunarkerfin endurspegla hinsvegar aðeins helstu og best þekktu tegundahópana, en þó þannig að hver tegundahópur endurspeglar sameiginlegan uppruna útfrá einni sameiginlegri móðurtegund. Rótin á flokkunartrénu samsvarar lífríkinu og uppruna alls lífs, sem greinist í sífellt smærri ættmeiða, allt til tegunda.
Tegundir eru samsafn áþekkra lífvera sem eru gerðar úr einni eða fleiri frumum. Allar lífverur afla sér næringar til viðurværis, þær geta að nokkru leyti brugðist við og lagað sig að breyttum aðstæðum og eignast smávægilega arfbreytt afkvæmi í eigin mynd. Náttúruval hefur valdið því að lítilsháttar arfgengur einstaklingsmunur hefur í tímans rás, orðið að þeirri gjá sem aðgreinir helstu fylkingar og flokka núlifandi tegunda.
Flokkunarfræðingar hafa sammælst um að auðkenna tegundahópa með svonefndu flokkunarstigi (taxonomical rank) til að staðsetja hópa innan þróunartrésins. Rót flokkunartrésins samsvarar lífheiminum, eða öllum tegundum jarðar, sem síðan greinist í sífellt smærri flokkunarheildir: lén (domain), ríki (kingdom), fylkingar (phylum), flokka (class), ættbálka (order), ættir (family), ættkvíslir (genus) og tegundir (species). Algengt er að flokkunarstigin séu mun fleiri ef kvíslgreining þróunar er vel þekkt, einkum innan tegundaríkra flokkunarheilda. Flokkunarstigin eru eingöngu hugsuð sem afstæð röðun tegundahópa eftir sama ættmeið innan þróunartrésins, en að öðru leyti eru flokkunarstigin gagnólík. Þannig er til dæmis engin náttúruleg samsvörun milli ranabjölluættarinnar (Curculionidae) með 50.000 tegundir og mannættarinnar (Hominidae), með sex tegundir, ásamt Homo sapiens.
Flokkunarfræði
Viðfangsefni flokkunarfræðinnar er að leiða líkum að þróunarsögu tegunda og flokka eftir uppruna. Yfirleitt gerður greinarmunur á skyldleikafræði (systematics), flokkunarfræði (taxonomy) og nafngiftafræði (nomenclature). Almennt er litið svo á að viðfangsefni skyldleikafræðinnar séu að skýra fjölbreytni lífs í ljósi þróunar. Flokkunarfræðin fæst við afla gagna um tegundir, lýsa þeim og skipa í flokkunarkerfi (classification) í samræmi við líklegasta þróunartréð. Enginn skarpur greinarmunur er á skyldleikafræði og flokkunarfræði og algengt að þessi heiti séu notuð jöfnum höndum, nánast í sömu merkingu. Hinsvegar hefur nafngiftafræðin skýrt tæknilegt markmið um að þróa og innleiða staðlað alþjóðlegt regluverk um nafngiftir tegunda og flokkunarheilda, eftir stigskiptu kerfi (hierachical system). Reynslan sýnir að hirðuleysi í flokkunarfræðilegum nafngiftum veldur allskyns misskilningi og þvælist fyrir eðlilegri þekkingaröflun. Með nafngiftareglunum er þó alls engin afstaða tekin til fræðilegra kenninga í skyldleika- eða flokkunarfræði.
Flokkunarkerfi eru stundum aðlöguð í ýmsum tilgangi, til dæmis þegar tegundir eru flokkaðar eftir búsvæðum, vistfræðilegu mikilvægi, fæðuvali eða flokkunin jafngildir greiningarlykli. Slík hentiflokkun (nominalism; arbitrary classification) hefur það meginmarkmið að þjóna þörfum notenda á sem skilvirkastan hátt. Slík flokkun byggist á fyrirfram völdum upplýsingum samkvæmt áhugasviði eða þörfum notenda og getur stangast óþyrmilega á við aragrúa arfgengra sérkenna sem afmarka náttúrulega tegundahópa sem eiga sér sameiginlegan uppruna.
Markmið svonefndrar upprunaflokkunar (phylogenetic systematics) er að leiða líkum að kvíslgreiningu þróunar, sem er táknað með skyldleikatré (cladogram). Kvíslgreining þróunartrésin, eða ættmeiðamyndunin, er reiknuð útfrá gagnasafni um sameiginleg sérkenni fjölda tegunda og er nálgun eða líkan af raunsönnum þróunarvenslum.
Hver flokkunarheild getur verið ein eða fleiri tegundir og er það táknað sem sjálfstæð grein á skyldleikatrénu. Náttúrulegir tegundahópar innihalda alla afkomendur frá einni og sömu móðurtegundinni. Slíkir hópar eru sagðir einættaðir (monophyletic). Vanættaðir hópar (paraphyletic) eru flokkunarheildir sem innihalda aðeins suma en ekki alla afkomendur sameiginlegs áa. Fjölættaðir hópar (polyphyletic) innihalda tvær eða fleiri fjarskyldar móðurtegundir og eftir atvikum aðeins suma af afkomendum þeirra. Bæði van- og fjölættuðum tegundahópum er hafnað sem tilviljanakenndri hentiflokkun.
Upprunaflokkun
Skordýrafræðingurinn Willi Hennig (1913-1976) er einn af frumkvöðlum upprunaflokkunar (phylogenetic systematics), en hún byggist á nokkrum einföldum grunnatriðum. Hennig færði rök fyrir því að einu nothæfu vísbendingarnar um þróunarskyldleika tegunda væru hverskyns afleidd sérkenni sem hafa erfst í breyttri mynd meðal allra afkomenda frá einum sameiginlegum forföður. Slík sérkenni nefndi hann hópkenni (synapomorphy). Tilurð slíkra afleiddra sérkenna má yfirleitt skýra sem ummyndun á frumstæðum eiginleika, sem hann nefndi frumkenni (symplesiomorphy). Frumkennið vísar því til eiginleika tegunda innan mun víðtækari flokkunarheildar en þeirrar sem er til athugunar hverju sinni. Hugtökin hópkenni og frumkenni eru því afstæð í þeim skilningi að þau vísa til upprunaskyldra eiginleika meðal flokkunarheilda sem samsvara kvíslgreiningum á þróunartrénu: þannig sitja hópkenni ofar í þróunartrénu en samsvarandi frumkenni eru neðar. Dæmi um hópkenni gæti til að mynda verið fjórir ganglimir af þeirri gerð sem einkennir hópinn ferfætlinga (Tetrapoda). Margt bendir til að slíkir ganglimir séu ummyndaðir uggar á fiskum, sem væru þá frumkenni ganglima, en það einkennir víðtækar flokkunarheild á þróunartrénu sem er neðan við hópinn ferfætlinga. Á sama hátt eru vængir leðurblaka ummyndaðir ganglimir og eru því vísbending um sameiginlegan uppruna allra leðurblaka – í þessu tilviki er frumkennið „ganglimir ferfætlinga“ og þar fyrir ofan á trénu er hópkennið „leðurblökuvængir“. Þannig er haldið áfram að leita sífellt fleiri hópkenna og afhjúpa tré sem endurspeglar kvíslgreiningu þróunar.
Nú er það svo í reynd að allar gagnaskrár um ætluð hópkenni tegunda (putative synapomorphies) innihalda einhverjar mótsagnir um sameiginlegan uppruna þeirra. Dæmi um það er gagnaskráin á meðfylgjandi mynd. Tegundir A og B, hafa hópkennið x’ en ekki tegund C sem hefur frumkennið x. Það bendir til að tegundir A+B hafi báðar erft x’ í umbreyttri mynd frá sameiginlegum forvera og tilheyri því einættuðum hóp sem tegund C er ekki hluti af (sjá mynd, tré 1). Hinsvegar hafa tegundir B og C hópkennin y’ og z’, sem eru aljöfn (congruent) þar sem bæði styðja tilgátuna um að B+C myndi einættaðan hóp sem tegund A er ekki hluti af (sjá mynd, tré 2). Það eru því tvöfalt fleiri hópkenni sem benda til að tegundir B+C séu innbyrðis skyldari en A+B. Ef tré (2) reynist rétt þá kallar það á aukatilgátu sem segir að hópkennið x’ sé í raun sýndarlíking (homoplasy) sem myndaðist í tveimur sjálfstæðum skrefum við þróun tegunda A og B. Sýnt hefur verið fram á að þróunartré sem lágmarkar fjölda sýndarlíkinga, eins og tré (2), er jafnframt það líklegasta á grundvelli tiltekins gagnasafns.
Gögn yfir hópkenni tegunda, eins og kirnaraðir gena, eða líkamsgerð, geta verið gríðarlega umfangsmikil. Þróaðar hafa verið tölfræðiaðferðir til að finna líklegasta þróunartréð fyrir gagnasöfn af ýmsum toga. Í grófum dráttum má skipta þessum aðferðum í tvennt. Annarsvegar eru þær sem byggjast á einföldunargildi (parsimony criterion) og hinsvegar þær sem styðjast við þróunarlíkön, sem aftur eru tvenns konar; í fyrsta lagi aðferð mesta sennileika (maximum likelihood) og hinsvegar aðferðir sem byggjast á bayesískum líkindareikningi. Reyndar eru nafngiftir á þessum aðferðum nokkuð villandi, vegna þess að einföldunaraðferðin (parsimony) tilheyrir einnig flokki tölfræðiaðferða sem eru kenndar við mesta sennileika.
Samrunaþróun og takmörk upprunaflokkunar
Síðustu áratugina hafa þróunartré að verulegu leyti byggst á gögnum um byggingu prótína og gena. Slíkar upplýsingar hafa til að mynda umbylt flokkun blómplantna og dregið fram áður hulinn skyldleika meðal dýra, en jafnframt rennt styrkari stoðum undir viðteknar hugmyndir um skyldleika stærri flokkunarheilda. Þróunartré sem grundvallast á einu eða fleiri genum eru gjarnan kölluð genatré (gene tree). Í ljós hefur komið að mismunandi gen veita misvísandi upplýsingar um skyldleika tegunda svipað og þekkt er með hefðbundin líkamseinkenni eins og beinabyggingu, vöðva, blóðrásarkerfi og fleira. En genin hafa einnig varpað ljósi á furðulegt og áður óþekkt fyrirbrigði, sérstaklega í þróun örvera.
Hefðbundin flokkunarkerfi byggjast á því að hver flokkunarheild og tegund geti aðeins verið upprunnin af einum móðurstofni. Almennt hefur ekki verið gert ráð fyrir að ættmeiðar sem hafa eitt sinn aðgreinst, gætu runnið saman síðar í þróunarsögunni. Hver tegund er því mögulega upphafið að nýjum ættmeið, algerlega einangrað og óháð fjarskyldari flokkunarheildum. Þannig virtist sem þróuninni væru sett ákveðin mörk. Það heyrði til undantekninga að nýjar tegundir yrðu til á einni kynslóð við kynblöndun fjarskyldra tegunda, þótt slík samrunaþróun (reticulate evolution) hafi löngum verið kunnuglegt úrlausnarefni við flokkun ýmissa plantna. Flokkun slíkra blendingstegunda skapar töluverð vandkvæði í hefðbundnum flokkunarkerfum sem eru hugsuð til að endurspegla kvíslgreind þróunartré. Talið var að örverur fylgdu sama kvíslgreinda þróunarferli og dýr og plöntur. Genarannsóknir hafa leitt í ljós að uppruni frumulíffæra á borð við hvatbera og grænukorn verður best útskýrður með samrunaþróun, þar sem örverur af mismunandi tegundum runnu saman í fyrndinni og urðu hlutar af nýjum tegundum. Samhliða því fluttust gen úr erfðamengjum grænukorna og hvatbera inn í erfðamengi viðkomandi „hýsiltegunda“. Þróunarsaga grænukorna og hvatbera á sér því sjálfstæða þróunarsögu áður en þau urðu hlutar af nýjum tegundum og ættbogum.
Síðustu áratugina hefur komið sífellt betur í ljós að bakteríutegundir geta skipst á genum. Þess háttar genaflakk eða láréttur genaflutningur (lateral / horizontal gene transfer) hefur að nokkru marki átt sér stað milli fjarskyldra flokkunarheilda og virðist hafa skipt umtalsverðu máli í þróun örvera. Þegar gen flyst úr einni tegund og yfir í aðra fjarskylda tegund, þá flytjast með aðskotageninu þær stökkbreytingar sem urðu innan upprunalegs ættmeiðs. Að þessu leyti hafa þróunarsögur tveggja ættmeiða runnið saman. Til að greina samrunaþróun af þessum toga meðal örvera er lesið úr mörgum genum, oft heilum erfðamengjum. En samrunaþróun varpar nýju ljósi á merkingu hugtaksins tegund. Til dæmis samanstendur genamengi saurgerilsins Escherichia coli af um 4.288 genum, en uppruna 755 þeirra má skýra sem genaflakk úr fjarskyldum tegundum raunbaktería síðustu 100 ármilljónirnar. Uppruna hvatbera í heilkjörnungum má rekja til svonefndra alfa-dreifkjörnunga og sennilegast eru grænukorn plantna komin af blágrænuþörungum. Slík samrunaþróun fellur ekki vel að kvíslgreindu þróunartré, með einangruðum ættmeiðum sem mynduðust fyrst við aðskilnað tegunda. Þó er sennilegt að verulega hafi dregið úr vægi samrunaþróunar meðal fjölfruma dýra og plantna, en fjölfrumungar urðu ekki til fyrr en tiltölulega langt var liðið á þróunarsögu lífsins. Ái allra lífvera var því ef til vill ekkert eitt lífsform né heldur ákveðinn afmarkaður ættmeiður. Hugsanlega var það samfélag allskyns dreifkjörnunga sem skiptust á genum og þróuðust sem misjafnlega einangraðir hlutar innan sömu heildar. Smám saman varð genaflakk tiltölulega fátíðara milli afmarkaðra hópa þegar hver og einn aðlagaðist að mismunandi umhverfisskilyrðum og myndaði sérhæfða líkamsgerð og lífsmáta, sem samsvara núlifandi flokkunarheildum raunbaktería, fornbaktería og heilkjörnunga. En í reynd er það varla svo að þessar niðurstöður kollvarpi algerlega viðteknum hugmyndum lífsins tré, þó að vissulega breyti þær undirstöðum þess og varpi nýju ljósi á rætur þróunarsögunnar.
(gg@ni.is)
Myndir

Höfundur
Guðmundur Guðmundsson 28.janúar 2016
- Ríki (Kingdom)
- Dýr (Animalia)
- Ríki (Kingdom)
- Dýr (Animalia)
- Fylking (Phylum)
- Liðdýr (Arthropoda)
- Fylking (Phylum)
- Liðdýr (Arthropoda)
- Undirfylking (Subphylum)
- Sexfætlur (Hexapoda)
- Undirfylking (Subphylum)
- Sexfætlur (Hexapoda)
- Flokkur (Class)
- Skordýr (Insecta)
- Flokkur (Class)
- Skordýr (Insecta)
- Ættbálkur (Order)
- Stökkskottur (Microcoryphia)
- Ættbálkur (Order)
- Stökkskottur (Microcoryphia)
- Ætt (Family)
- Kampaskottuætt (Machilidae)
- Ætt (Family)
- Kampaskottuætt (Machilidae)
- Tegund (Species)
- Kampaskotta (Petrobius brevistylis)
Dýr (Animalia)

Almennt
Dýr eru fjölfruma heilkjörnungar (Eucaryota) með ýmsa sérhæfða frumuvefi og líffæri sem aðrar lífverur hafa ekki, til að mynda taugar og vöðva. Flest bendir til að allar dýrategundir myndi einættaða flokkunarheild (monophyletic group), þ.e. að uppruni þeirra er rakinn til einnar og sömu móðurtegundarinnar. Nánasti ættingi dýra eru kragafrumungar (Choanoflagellata), en það eru einfrumungar sem mynda laustengt sambýli margra einstaklinga. Hin sameiginlega formóðir allra vefdýra og núlifnandi kragafrumunga var uppi fyrir rúmlega 600 milljón árum, eða á ofanverðu forkambríum.
Öll dýr eru ófrumbjarga og afla sér næringar með því að taka til sín lífræna fæðu með ýmsum hætti. Þótt slíkur lífsmáti einkenni dýr, þá þekkist hann einnig meðal annarra lífvera, til að mynda gerla og sumra plantna sem veiða dýr sér til viðurværis. Ófrumbjarga lífsmáti er því afar frumstæður eiginleiki, í þeim skilningi að hann varð til og þróaðist löngu fyrir tilurð dýra.
Núlifandi dýr skiptast í um 35 fylkingar (Phylum), sem flestar aðgreindust í þróunarsögunni við upphaf kambríum, fyrir 541 milljón árum. Allflestar þessara fylkinga eiga sér fulltrúa í íslenskri náttúru. Langsamlega tegundaríkasta fylkingin er liðdýr, en þar á meðal eru skordýr, krabbadýr og fleiri fjölskrúðugir undirhópar. Af öllum þekktum tegundum jarðar, þá eru um 82% liðdýr, en þar á eftir eru lindýr, með um 6% tegundanna. Áætla má að heildarfjöldi dýrategunda í heiminum séu um 7,7 milljónir, en þar af er aðeins búið að uppgötva rúmlega 1,6 milljón. Þótt aðeins lítill hluti dýrategunda sé þekktur, þá er nokkuð víst að hlutfallsleg skipting þeirra milli fylkinga liggi fyrir í megindráttum.
Íslenskar dýrategundir skipta þúsundum. Á landi og í ferskvatni eru þekktar rúmlega 2.000 tegundir og innan íslenskrar efnahagslögsögu er vitað um ríflega 2500 tegundir. Heildarfjöldinn er þó eflaust margfalt meiri, enda eru fjölmargir tegundaauðugir dýrahópar í íslenskri náttúru lítt rannsakaðir.
(gg@ni.is)
Heimildir
1.Zhang, Z-Q. (2013). Animal biodiversity: An update of classification and diversity in 2013. Zootaxa, 3703: 5-11.
2.Lecointre, G. & Le Guyader, H. 2006. The tree of life, Harvard Univ. Press, London.
3. Mora C, Tittensor DP, Adl S, Simpson AGB, Worm B (2011). How Many Species Are There on Earth and in the Ocean? PLoS Biol 9(8): e1001127.doi:10.1371/journal.pbio.1001127
4. https://en.wikipedia.org/wiki/Animal (ath.27.1.2016)
Höfundur
Guðmundur Guðmundsson 27.janúar 2016, 28.janúar 2016
Liðdýr (Arthropoda)
Almennt
Liðdýr er fylking hryggleysingja með ytri stoðgrind, liðskiptan bol og liðskipta fætur. Stoðgrindin er gerð úr kítíni, stundum að nokkrum hluta úr kalki. Stoðgrindin heftir vöxt og hafa dýrin því hamskipti á vaxtarskeiðum. Að grunni til hefur hver liður bolsins par útlima sem þróast hafa á ótal vegu. Á liðum sem mynda höfuð hafa útlimirnir myndað munnlimi, á frambol ganglimi, einnig á afturbol nema útlimir öftustu liða sem taka þátt í myndun kynfæra. Þetta byggingarform hefur boðið upp á óþrjótandi möguleika á þróunarbrautinni og leitt til þess að liðdýr er langsamlega tegundaríkasta fylking dýraríkisins og hýsir um 80% allra dýrategunda sem lýst hefur verið. Liðdýr finnast nær hvarvetna á jörðinni, frá þurrustu auðnum á landi niður í hafdjúpin. Þó stærðarmunur sé mikill þá setur líkamsgerðin stærðinni takmörk. Þar ræður ytri stoðgrind miklu svo og loft- og efnastreymi um líkamann sem fer fram í opnum líffærakerfum. Stærstu liðdýrin lifa í sjó.
Höfundur
Erling Ólafsson 16. nóvember 2015
Sexfætlur (Hexapoda)
Almennt
Sexfætlur skipa undirfylkingu liðdýra með glögglega þrískiptan bol, þrjú pör ganglima á frambol en enga á afturbol að undanskildum leifum útlima sem enn koma fyrir hjá tegundum í frumstæðum ættbálkum skordýra. Öll önnur liðdýr hafa fleiri fætur að grunni til. Sexfætlur skiptast í tvo flokka, holtanna (Entognatha) og skordýr (Insecta). Áður voru holtannar staðsettir í flokki skordýra.
Höfundur
Erling Ólafsson 14. desember 2017.
Skordýr (Insecta)
Almennt
Skordýr hafa þrískiptan bol sem skiptist í höfuð, frambol og afturbol. Á höfði eru tveir fálmarar og tvö samsett augu. Frambolur er gerður úr þrem samgrónum liðum, samskeytin oft ógreinileg. Á honum eru þrjú pör fóta, eitt á hverjum lið, oftast tvö pör vængja, annað á miðlið hitt á afturlið, vængir stundum ummyndaðir, stundum hefur annað parið, jafnvel bæði, þróast burt. Frumstæðustu skordýr hafa aldrei haft vængi. Þeir koma fram síðar á þróunarleiðinni. Afturbolur er að grunni til gerður úr 11 liðum. Liðskiptingin er greinileg, þó sjaldnast sjáist merki um alla grunnliðina. Þeir öftustu hafa oftast tekið þátt í að móta kynfæri og aðrir kunna að vera samgrónir. Afturbolur er án útlima að undanskildum leifum fóta á frumstæðustu formum.
Skordýr eru afar mikilvæg í náttúrunni og nauðsynleg í ýmsum ferlum, s.s. niðurbroti lífrænna efna og frævun blóma. Þau eru lífsnauðsynleg fæða fyrir aragrúa dýra og jafnvel plöntur. Skordýr eru ómissandi í vistkerfum lands og ferskvatns og er þjónusta þeirra við vistkerfin bráðnauðsynleg fyrir afkomu mannsins.
Skordýr eru tegundaríkasti flokkur dýra í heiminum. Flokkun þeirra er í stöðugri þróun jafnt á plani tegunda sem hærri flokkunareininga. Sem stendur eru ættbálkar skordýra í heiminum 27 talsins. Yfir milljón tegundum skordýra hefur verið lýst sem er helmingur þekktra tegunda lífvera. Talið er að tegundirnar séu í raun á bilinu 6-10 milljónir og að um 90% dýrategunda séu skordýr. Á Íslandi hafa fundist fulltrúar 19 ættbálka. Um 1.375 tegundir eru landlægar eða gestir hér fyrir eigið tilstilli. Um 280 tegundir sem slæðst hafa til landsins með innfluttum varningi hafa verið nafngreindar. Nokkrar tegundir hafa átt hér tímabundna búsetu.
Höfundur
Erling Ólafsson 16. nóvember 2015
Stökkskottur (Microcoryphia)
Almennt
Stökkskottur (Microcoryphia) eru mjög frumstæður ættbálkur vængleysingja sem var lengstum komið fyrir í ættbálki með kögurskottum sem þá gekk undir fræðiheitinu Thysanura. Nú skipa þær sinn sérstaka ættbálk. Stökkskottur hafa lítið breyst frá því að þær komu fram á sjónarsviðið með fyrstu skordýrum. Þær hafa frumstæðari kjálka en önnur skordýr. Eldra fræðiheiti er Archaeognatha sem er dregið af archaios: forn og gnathos: kjálki.
Stökkskottur hafa aflangan liðskiptan bol sem er 12–20 mm langur, breiðastur framan til, mjókkar aftur, endar í þremur margliða, þráðlaga skottum sem öll beinast beint aftur frá bolnum, miðskottið lengst. Þær eru dökkbrúnar á lit eða því sem næst svartar, stundum með ljósum flikrum. Skelin er þakin gljáandi hreistri.
Höfuðið er vel afmarkað en að nokkru hulið undir bakplötu fremsta liðar frambols. Stór samsett augu ná saman ofan á höfðinu. Einnig hafa stökkskottur depilaugu. Fálmarar eru langir og margliða, u.þ.b. jafnlangir bolnum. Bitkjálkar eru mjög frumstæðir og virka frekar eins og bor en bitfæri.
Liðskipting frambols mjög greinileg. Bakplöturnar eru stórar, ávalar og liggja langt niður með hliðum frambols. Undir þeim eru lítilfjörlegar hliðarplötur. Nokkrar litlar plötur tilheyra framlið, en aðeins ein hvorum aftari liðanna (þ.e. ein hvoru megin). Kviðplötur eru einnig litlar. Stofnliðir fóta eru stórir, skammliðir tvískiptir, fótliðir þrískiptir og klóliður með tvær klær.
Afturbolur er breiðastur fremst og mjókkar jafnt og þétt aftur. Bakplötur eru stórar en þó minni en bakplötur frambolsins. Þær eru á svipaðan hátt sveigðar niður með hliðunum og gera bolinn sívalan. Plötubúnaður á kviðnum er allsérstæður. Kviðplöturnar sjálfar eru litlar, miðlægar, en aftan á þær eru festar tvær mun stærri samhliða stofnliðsplötur sem eru hluti af merkjum eftir upprunalegan fótabúnað forverans. Á stofnliðsplötum liða 2–9 sitja síðan stílar, einn á afturjaðri hverrar plötu. Stílar þessir eru tengdir vöðvum og hreyfanlegir, eru því augljósar eftirstöðvar fóta. Mjög lítill munur er á kynfærum kynjanna en svo lítill kynjamunur bendir til þess að dýrin makist ekki með snertingu.
Stökkskottur eru mjög kvikar og snarar í snúningum og geta stokkið ef styggð kemur að þeim. Þær beita skottunum við stökkin.
Tegundafæð loðir gjarnan við forna ættbálka. Líklegt er að slíkir muni fífil sinn fegri og að farið sé að halla undan fæti hjá þeim í samkeppni við yngri og þróaðri lífsform. Alls eru þekktar eru um 420 tegundir stökkskotta í heiminum. Sárafáar finnast í nágrannalöndum okkar, t.d. aðeins þrjár í Svíþjóð. Hérlendis hefur aðeins fundist ein tegund af þessum ættbálki. Í Evrópu eru tvær ættir, önnur þeirra finnst á Íslandi og aðeins ein tegund.
Höfundur
Erling Ólafsson 30. nóvember 2015
Kampaskottuætt (Machilidae)
Almennt
Alls finnast í heiminum um 250 þekktar tegundir af stökkskottum sem eru mjög frumstæð skordýr. Í Evrópu eru 196 tegundir skráðar í 20 ættkvíslum.
Sívalur bolurinn er grár eða brúnleitur, sprengdur. Hann er langur, breiðastur aftan við frambol, grennist jafnt aftur og endar í þrem skottum þar sem miðskottið er langlengst, svipað langt og bollengdin. Hliðarskottin (cerci) liggja aftur en beinast ekki út til hliðanna. Frambolur er kýttur, með áberandi kryppu, þakinn hreisturflögum. Höfuð frekar lítið með tveim stórum samsettum augum sem taka mest af kollinum og snertast oftast. Mjög langir fálmarar mjókka fram. Mjög langir þreifarar liggja fram á milli fálmaranna en dýrin halda þeim gjarnan krepptum inn undir hausinn. Stökkskottur taka litlum sem engum myndbreytingum á þroskaferlinu.
Á öllum stigum nærast stökkskottur á ýmsu plöntukyns eða á hræjum. Margar tegundir finnast á grýttum ströndum þar sem þær leynast afar vel í grjótinu eins og þær eru litar. Aðrar finnast í gróðurlendum inn til lands. Þær eru mjög hraðskreiðar og taka undir sig stökk á flótta. Mökun er óbein. Karldýr skilar frá sér sæðisdropa á undirlagið sem kvendýr síðan pikkar upp. Sum spinna silkiþráð út frá bögglinum til að leiða kvendýr að honum eða koma honum fyrir á stilki.
Á Íslandi finnst aðeins ein tegund stökkskottna og er hún bundin við sjávarstrendur, bæði strandlínur nútímans og eldri strandlínur sem færst hafa innar í land.
Höfundur
Erling Ólafsson 9. febrúar 2017.