Lindabytta (Limnephilus affinis)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, til N-Noregs, og austur í miðbik Asíu; Færeyjar.

Ísland: Láglendi um land allt, á miðhálendinu í Þjórsárverum og við Hvítárvatn.

Lífshættir

Lindabytta elst einna helst upp í hreinu lindavatni, við uppstreymi og í rennsli frá lindum. Einnig við grýtta vatnsbakka þar sem öldugangs gætir. Hún sækir gjarnan í volgrur, þó ekki of heitt vatn, og jafnvel ísalt vatn við sjó. Hún spannar því nokkuð vítt svið. Flugtíminn er langur eða frá lokum maí fram undir miðjan október. Það heyrir þó til undantekninga að mæta tegundinni á flugi svo seint á haustin. Langflestar eru á ferð seinni hluta júní og í júlí. Eggjum er orpið allt sumarið og þrauka lirfur veturinn á mismunandi þroskastigum. Þær sem ná fullum vexti að hausti fullorðnast strax að vori en þær sem skemur eru komnar á þroskastigi halda uppvextinum áfram og komast á flug síðar um sumarið. Lirfurnar gera sér hús ýmist úr sandkornum eða plöntuhlutum.

Almennt

Lindabytta er algeng vorflugutegund hér á landi en en sést þó yfirleitt ekki í miklum fjölda nema staðbundið nálægt heppilegum uppeldisstöðvum. Stöku dýr geta þó slæðst langar leiðir út í óvissu og þær heppnu með því móti numið nýjar lindir. Hún er óvíða á miðhálendinu. Hún dafnar þó vel í Þjórsárverum, þ.e. við Nautöldu og á jarðhitasvæðum í nágrenni hennar. Undir Nautöldu eru öflugar tærar uppsprettulindir og volgrur og heitar laugar skammt undan. Í 15°C heitri laug reyndist vera mikið af lirfum lindabyttu. Vorflugur í lindum á sjávarfitjum eða þar sem seltu gætir eru að öllu jöfnu lindabyttur og vorflugur, sem safnað var á jarðhitasvæði sem kom á þurrt þegar vatnsborð Kleifarvatns á Reykjanesi í kjölfar jarðskjálftanna 2000, reyndust allar vera lindabyttur. Volgir lækir henta því lindabyttu augljóslega vel.

Lindabytta er afar lík öðrum tegundum ættkvíslarinnar Limnephilus með sína grábrúnu vængi og er því vissast að greina tegundina eftir einkennum á kynfærum. Þó getur dökkbrúnn blettur við framjaðar framvængs, um 2/3 fjarlægðar frá vængrót, verið verið meira áberandi á lindabyttu en öðrum vorflugum og vísbending um þessa tegund. Því ber þó ekki að treysta.

Útbreiðslukort

Heimildir

Erling Ólafsson 2000. Landliðdýr í Þjórsárverum. Rannsóknir 1972–1073 Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 40. 159 bls.

Fristrup, B. 1942. Neuroptera and Trichoptera. Zoology of Iceland III, Part 43–44. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 23 bls.

Gísli Már Gíslason 1977. Flight periods and ovarian maturation in Trichoptera in Iceland. Proc. of the 2nd Symp. on Trichoptera, 1977, Junk, The Hague: 135–146.

Gísli Már Gíslason 1978. Íslenskar vorflugur (Trichoptera). Náttúrufræðingurinn 48: 62–72.

Gísli Már Gíslason 1979. Identification of Icelandic caddis larvae, with descriptions of Limnephilus fenestratus (Zett.) and L. picturatus McL. (Trichoptera: Limnephilidae, Pgryganeidae). Ent. scand 10: 161–176.

Gísli Már Gíslason 1981. Distibution and habitat preferences of Icelandic Trichoptera. Í: G.P. Moretti (ritstj.), Proc. of the 3rd Int. symp. on Trichoptera. Series ent. 20: 99–109.

Höfundur

Erling Ólafsson 9. nóvember 2011.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Vorflugur (Trichoptera)
Ætt (Family)
Grábyttuætt (Limnephilidae)
Tegund (Species)
Lindabytta (Limnephilus affinis)