Dropatvífætla (Blaniulus guttulatus)

Útbreiðsla

Náttúruleg útbreiðsla nær yfir Mið- og Norður-Evrópu og austur um til Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Hefur borist með mönnum víða, austur eftir Asíu, til Norður-Ameríku, eyja í Atlantshafi (Asoreyjar, Madeira, Kanaríeyjar, Tristan da Cunha), einnig til Tasmaníu og smáeyjarinnar Norfolkeyjar djúpt undan austurströnd Ástralíu.

Ísland: Reykjavík.

Lífshættir

Dropatvífætla er háð manngerðu umhverfi og finnst einna helst í haugum af rotnandi gróðurúrgangi, í gróðurhúsum, matjurtagörðum, húsagörðum og kirkjugörðum. Hún kýs kalkríkan jarðveg eins og flestar þúsundfætlur, helst umbyltum vegna ræktunar. Getur reynst skaðleg í ræktun jarðarberja og bauna, einnig rauðrófna í nágrannalöndum okkar. Leitar í ávexti sem falla af trjám.

Almennt

Tegundin er fágæt hérlendis og hefur aðeins tvívegis verið staðfest í Reykjavík  1998 og 2014. Hún hefur fundist undir steinum í húsagarði og í kassa þar sem jarðarber voru ræktuð. Ef matjurtagarðar yrðu skoðaðir betur en gert hefur verið má búast við að dropatvífætlur kæmu enn frekar í leitir.

Dropatvífætla (8-16 mm) er frekar smávaxin, kvendýr öllu lengri en karldýr, grannvaxin sívalningslaga. Gljáandi á skelina, hvít til gulgrá á lit með, röð rauðra, dropalaga eiturkirtla eftir hliðunum er áberandi. Fjöldi bolliða og þar með fótapara er breytilegur, karldýr hafa 36-39 bolliði en kvendýr 40-56. Dropatvífætla er lík nátvífætlu (Boreioulus tenuis) en mun stærri.

Útbreiðslukort

Heimildir

Andersson, G., B.A. Meidell, U. Scheller, J.-Å. Winqvist, M. Osterkamp Madsen, P. Djursvoll, G. Budd & U. Gärdenfors 2005. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Mångfotingar. Myriapoda. Artdatabanken, SLU, Uppsala. 351 bls.

Fauna Europea. Blaniulus guttulatus. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=324989.

Höfundur

Erling Ólafsson 2. febrúar 2017.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Fjölfætlur (Myriapoda)
Flokkur (Class)
Þúsundfætlur (Diplopoda)
Ættbálkur (Order)
Valartvífætlur (Julida)
Ætt (Family)
Barkartvífætluætt (Blaniulidae)
Tegund (Species)
Dropatvífætla (Blaniulus guttulatus)