Andarnefja (Hyperoodon ampullatus). – Ljósm. Sigurður Ægisson
Útbreiðsla
Útbreiðsla andarnefju er bundin við Norður Atlantshaf, frá tempruðum hafsvæðum (40°N) allt norður í heimskautasvæði (72°N). Andarnefjan er djúpsjávarhvalur og hér við land er algengast að sjá hana við landgrunnsbrúnina á sumrin frá apríl og fram í miðjan ágúst. Hún virðist iðulega lenda í vandræðum fari hún of nálægt ströndum og er meðal þeirra hvalategunda sem oftast finnast reknar á fjörur á Íslandi.
Stofnfjöldi
Ekki eru til nýlegar tölur um stærð heildarstofns andarnefju, aðallega vegna skorts á gögnum um köfunarhegðun, sem hefur áhrif á niðurstöður talninga, sérstaklega hjá djúpköfurum. Árið 1995 kom út skýrsla þar sem kom fram að gróflega áætlað væru í Austurstofni Norður-Atlantshafs um 40.000 dýr (NAMMCO 1995), þar af rúmlega 3.000 á íslensku hafsvæði (Gunnlaugsson og Sigurjónsson 1990). Vegna ofangreindra örðugleika liggja ekki fyrir nýlegri nákvæmar tölur um stærð stofnsins, hvorki hér við land né annars staðar í Norður-Atlantshafi.
Andarnefjur voru meðal þeirra hvalategunda sem mikið var veitt af í Norður-Atlantshafi fyrr á öldum, meðal annars á stóru svæði norður af Íslandi (Taylor o.fl. 2008). Í norskri rannsókn frá 1983 kemur fram að Norður Atlantshafsstofninn hafi verið áætlaður um 30.000 dýr árið 1914 en hafi að öllum líkindum verið þrefalt stærri fyrir daga nútíma hvalveiða. Um miðjan 9. áratug síðastliðinnar aldar hafi andarnefjustofninn í Norður-Atlantshafi verið áætlaður 54.000 dýr (Christensen og Ugland 1983). Samkvæmt veiðitölum voru 65.000-80.000 andarnefjur veiddar á Norður Atlantshafssvæðinu á tímabilinu 1850-1970 (Mitchell 1977).
Lífshættir
Lífslengd andarnefja er ekki vel þekkt en elsta aldursgreinda dýrið var 37 ára tarfur. Flestar andarnefjur verða kynþroska átta til tólf ára og er meðgöngutími 12 mánuðir. Kýr mjólka kálfum sínum í eitt ár og flest bendir til þess að burður sé að jafnaði annað hvert ár. Andarnefjur eru yfirleitt í litlum hópum, 3-4 dýr, oftast af sama kyni og aldri. Kýr með kálfum fara stundum saman í hópum. Þær eru forvitnar og nálgast gjarnan báta á reki. Fæðan er aðallega smokkfiskur þó þær éti einnig eitthvað smávegis af fiski. Andarnefjur geta kafað niður á meira en þúsund metra dýpi og eru að jafnaði 40 mínútur í kafi. Aðeins búrhvalir geta kafað svo djúpt en báðar tegundir hafa hólf í höfði með sérstakri gerð af fitu, olíu og bandvef, sem hugsanlega skiptir máli til að þola mikinn þrýsting.
Lýsing
Andarnefjan er næst stærsti tannhvalurinn í Norður Atlantshafi (fyrir utan búrhvalstarfa) og getur tarfurinn orðið meira en níu metrar að lengd og sjö tonn að þyngd. Kvendýrin eru mun minni og ná mest 7-8 metra lengd og 5 tonna þyngd. Megin útlitseinkenni andarnefjunnar er höfuðlagið en ennið er hátt og trýnið framstætt, svolítið eins og á önd. Horn andarnefjunnar er staðsett aftan við miðju baksins, um 30 sm hátt og aftursveigt. Bægslin eru stutt, sporðurinn er samfelldur og engin vik á miðju hans. Fullorðin dýr eru dökk á baki og ljósari að neðanverðu og á andliti. Litur ungra dýra getur verið breytilegur á efri hluta líkamans, allt frá svörtum yfir í brúnan en neðri hlutinn og andlitið er yfirleitt gráhvítur.
Kynslóðalengd (IUCN): 17,7 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir.
Ekki hefur verið gerð greining á þróun stofnstærðar andarnefju en ljóst er að stofninn var miklu stærri fyrir tíma nútíma hvalveiða. Vegna þess, ásamt óvissu í stofnmati, er ekki hægt að útiloka að tegundin geti verið í hættu. Því flokkast tegundin sem gögn vantar (DD) við Ísland.
Staða á heimsvísu
Andarnefjan flokkast undir (DD) gögn vantar, á Heims- og Evrópulista IUCN. Við Noreg telst tegundin ekki í hættu (LC) og er ekki metin við Grænland (NA).
Ógnir
Andarnefja er talin sérstaklega viðkvæm fyrir hljóðmengun í hafinu (heræfingar, olíuleit o.fl.) en hugsanleg áhrif þessara þátta á stofn andarnefja er erfitt að meta. Önnur mengun, sem einnig herjar á aðra hvali, er talin geta valdið því að andarnefjur eigi erfitt uppdráttar. Vegna óvissu í stofnmati og líkanagerð er þó ekki hægt að staðfesta slík áhrif.
Myndir
Andarnefja (Hyperoodon ampullatus). – Ljósm. Sigurður Ægisson
Heimildir
Christensen, I., Ugland, K.I. 1983. The history of exploitation and status of the northeast Atlantic bottlenose whale (Hyperoodon ampullatus). IWC/SC/35/SM 15.
Droplaug Ólafsdóttir og Gísli A. Víkingsson (2004). Andarnefja. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavik, bls. 176-179.
Gunnlaugsson, T. and Sigurjonsson, J. 1990. A note on the problem of false positives in the use natural marking data for abundance estimation. Reports of the International Whaling Commission 12: 143-145.
Mitchell, E. D. 1977. Evidence that the northern bottlenose whale is depleted. Reports of the International Whaling Commission 27: 195-201.
NAMMCO. 1995. Report of the joint meeting of the Scientific Committee working groups on northern bottlenose and killer whales and management procedures. NAMMCO Annual Report 1995, pp 89-99.
Taylor, B.L., Baird, R., Barlow, J., Dawson, S.M., Ford, J., Mead, J.G., Notarbartolo di Sciara, G., Wade, P. & Pitman, R.L. 2008. Hyperoodon ampullatus. The IUCN Red List of Threatened Species 2008: e.T10707A3208523. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2008.RLTS.T10707A3208523.en. Downloaded on 11 May 2018.
Möguleg þróunartré fyrir tegundir A, B og C. Tegundir A og B hafa hópkennið x´ (synapomorphy) sem er umbreytt frumkennið x (symplesiomorphy). Á sama hátt hafa B og C hópkennin y’ og z’. Þróunartré (1) gerir ráð fyrir að x’ hafi myndast í einu skrefi og erfst meðal tegunda A og B: ef svo er þá verður að gera ráð fyrir að hópkennin y’ og z’ séu sýndarlíkingar (homoplasies) og að samanlagt hafi þau myndast í fjórum sjálfstæðum þróunarskrefum í tegund B og C. Heildarfjöldi skrefa fyrir tré (1) eru því 5. Með líkum hætti þá útheimtir þróunartré (2) aðeins 4 skref og lágmarkar því fjölda hugsanlegra sýndarlíkinga. Tré (2) er því jafnframt líklegasta þróunartréð á grundvelli fyrirliggjandi gagna. – Ljósm. Guðmundur Guðmundsson
Almennt
Elsta steingerða lífveran á jörðinni er um 3,6 milljarða ára og fyrir um 600 milljónum ára voru allar helstu megindeildir lífheimsins komnar fram, svonefnd ríki (Kingdoms): dreifkjörnungar (Procaryota), einfrumungar (Protista), sveppir (Fungi), plöntur (Plantae) og dýr (Animalia), einnig nefnd vefdýr.
Síðustu áratugina hefur skilningi á þróunarsögu lífs fleygt fram, einkum vegna rannsókna á erfðamengi tegunda og bættra tölfræðiaðferða við að leiða líkum að innbyrðis skyldleika þeirra. Líklegasta þróunarsagan er táknuð með skyldleikatré (cladogram), sem er prófanlegt líkan eða nálgun að margbrotinni atburðarás. Flokkunarkerfin endurspegla hinsvegar aðeins helstu og best þekktu tegundahópana, en þó þannig að hver tegundahópur endurspeglar sameiginlegan uppruna útfrá einni sameiginlegri móðurtegund. Rótin á flokkunartrénu samsvarar lífríkinu og uppruna alls lífs, sem greinist í sífellt smærri ættmeiða, allt til tegunda.
Tegundir eru samsafn áþekkra lífvera sem eru gerðar úr einni eða fleiri frumum. Allar lífverur afla sér næringar til viðurværis, þær geta að nokkru leyti brugðist við og lagað sig að breyttum aðstæðum og eignast smávægilega arfbreytt afkvæmi í eigin mynd. Náttúruval hefur valdið því að lítilsháttar arfgengur einstaklingsmunur hefur í tímans rás, orðið að þeirri gjá sem aðgreinir helstu fylkingar og flokka núlifandi tegunda.
Flokkunarfræðingar hafa sammælst um að auðkenna tegundahópa með svonefndu flokkunarstigi (taxonomical rank) til að staðsetja hópa innan þróunartrésins. Rót flokkunartrésins samsvarar lífheiminum, eða öllum tegundum jarðar, sem síðan greinist í sífellt smærri flokkunarheildir: lén (domain), ríki (kingdom), fylkingar (phylum), flokka (class), ættbálka (order), ættir (family), ættkvíslir (genus) og tegundir (species). Algengt er að flokkunarstigin séu mun fleiri ef kvíslgreining þróunar er vel þekkt, einkum innan tegundaríkra flokkunarheilda. Flokkunarstigin eru eingöngu hugsuð sem afstæð röðun tegundahópa eftir sama ættmeið innan þróunartrésins, en að öðru leyti eru flokkunarstigin gagnólík. Þannig er til dæmis engin náttúruleg samsvörun milli ranabjölluættarinnar (Curculionidae) með 50.000 tegundir og mannættarinnar (Hominidae), með sex tegundir, ásamt Homo sapiens.
Flokkunarfræði
Viðfangsefni flokkunarfræðinnar er að leiða líkum að þróunarsögu tegunda og flokka eftir uppruna. Yfirleitt gerður greinarmunur á skyldleikafræði (systematics), flokkunarfræði (taxonomy) og nafngiftafræði (nomenclature). Almennt er litið svo á að viðfangsefni skyldleikafræðinnar séu að skýra fjölbreytni lífs í ljósi þróunar. Flokkunarfræðin fæst við afla gagna um tegundir, lýsa þeim og skipa í flokkunarkerfi (classification) í samræmi við líklegasta þróunartréð. Enginn skarpur greinarmunur er á skyldleikafræði og flokkunarfræði og algengt að þessi heiti séu notuð jöfnum höndum, nánast í sömu merkingu. Hinsvegar hefur nafngiftafræðin skýrt tæknilegt markmið um að þróa og innleiða staðlað alþjóðlegt regluverk um nafngiftir tegunda og flokkunarheilda, eftir stigskiptu kerfi (hierachical system). Reynslan sýnir að hirðuleysi í flokkunarfræðilegum nafngiftum veldur allskyns misskilningi og þvælist fyrir eðlilegri þekkingaröflun. Með nafngiftareglunum er þó alls engin afstaða tekin til fræðilegra kenninga í skyldleika- eða flokkunarfræði.
Flokkunarkerfi eru stundum aðlöguð í ýmsum tilgangi, til dæmis þegar tegundir eru flokkaðar eftir búsvæðum, vistfræðilegu mikilvægi, fæðuvali eða flokkunin jafngildir greiningarlykli. Slík hentiflokkun (nominalism; arbitrary classification) hefur það meginmarkmið að þjóna þörfum notenda á sem skilvirkastan hátt. Slík flokkun byggist á fyrirfram völdum upplýsingum samkvæmt áhugasviði eða þörfum notenda og getur stangast óþyrmilega á við aragrúa arfgengra sérkenna sem afmarka náttúrulega tegundahópa sem eiga sér sameiginlegan uppruna.
Markmið svonefndrar upprunaflokkunar (phylogenetic systematics) er að leiða líkum að kvíslgreiningu þróunar, sem er táknað með skyldleikatré (cladogram). Kvíslgreining þróunartrésin, eða ættmeiðamyndunin, er reiknuð útfrá gagnasafni um sameiginleg sérkenni fjölda tegunda og er nálgun eða líkan af raunsönnum þróunarvenslum.
Hver flokkunarheild getur verið ein eða fleiri tegundir og er það táknað sem sjálfstæð grein á skyldleikatrénu. Náttúrulegir tegundahópar innihalda alla afkomendur frá einni og sömu móðurtegundinni. Slíkir hópar eru sagðir einættaðir (monophyletic). Vanættaðir hópar (paraphyletic) eru flokkunarheildir sem innihalda aðeins suma en ekki alla afkomendur sameiginlegs áa. Fjölættaðir hópar (polyphyletic) innihalda tvær eða fleiri fjarskyldar móðurtegundir og eftir atvikum aðeins suma af afkomendum þeirra. Bæði van- og fjölættuðum tegundahópum er hafnað sem tilviljanakenndri hentiflokkun.
Upprunaflokkun
Skordýrafræðingurinn Willi Hennig (1913-1976) er einn af frumkvöðlum upprunaflokkunar (phylogenetic systematics), en hún byggist á nokkrum einföldum grunnatriðum. Hennig færði rök fyrir því að einu nothæfu vísbendingarnar um þróunarskyldleika tegunda væru hverskyns afleidd sérkenni sem hafa erfst í breyttri mynd meðal allra afkomenda frá einum sameiginlegum forföður. Slík sérkenni nefndi hann hópkenni (synapomorphy). Tilurð slíkra afleiddra sérkenna má yfirleitt skýra sem ummyndun á frumstæðum eiginleika, sem hann nefndi frumkenni (symplesiomorphy). Frumkennið vísar því til eiginleika tegunda innan mun víðtækari flokkunarheildar en þeirrar sem er til athugunar hverju sinni. Hugtökin hópkenni og frumkenni eru því afstæð í þeim skilningi að þau vísa til upprunaskyldra eiginleika meðal flokkunarheilda sem samsvara kvíslgreiningum á þróunartrénu: þannig sitja hópkenni ofar í þróunartrénu en samsvarandi frumkenni eru neðar. Dæmi um hópkenni gæti til að mynda verið fjórir ganglimir af þeirri gerð sem einkennir hópinn ferfætlinga (Tetrapoda). Margt bendir til að slíkir ganglimir séu ummyndaðir uggar á fiskum, sem væru þá frumkenni ganglima, en það einkennir víðtækar flokkunarheild á þróunartrénu sem er neðan við hópinn ferfætlinga. Á sama hátt eru vængir leðurblaka ummyndaðir ganglimir og eru því vísbending um sameiginlegan uppruna allra leðurblaka – í þessu tilviki er frumkennið „ganglimir ferfætlinga“ og þar fyrir ofan á trénu er hópkennið „leðurblökuvængir“. Þannig er haldið áfram að leita sífellt fleiri hópkenna og afhjúpa tré sem endurspeglar kvíslgreiningu þróunar.
Nú er það svo í reynd að allar gagnaskrár um ætluð hópkenni tegunda (putative synapomorphies) innihalda einhverjar mótsagnir um sameiginlegan uppruna þeirra. Dæmi um það er gagnaskráin á meðfylgjandi mynd. Tegundir A og B, hafa hópkennið x’ en ekki tegund C sem hefur frumkennið x. Það bendir til að tegundir A+B hafi báðar erft x’ í umbreyttri mynd frá sameiginlegum forvera og tilheyri því einættuðum hóp sem tegund C er ekki hluti af (sjá mynd, tré 1). Hinsvegar hafa tegundir B og C hópkennin y’ og z’, sem eru aljöfn (congruent) þar sem bæði styðja tilgátuna um að B+C myndi einættaðan hóp sem tegund A er ekki hluti af (sjá mynd, tré 2). Það eru því tvöfalt fleiri hópkenni sem benda til að tegundir B+C séu innbyrðis skyldari en A+B. Ef tré (2) reynist rétt þá kallar það á aukatilgátu sem segir að hópkennið x’ sé í raun sýndarlíking (homoplasy) sem myndaðist í tveimur sjálfstæðum skrefum við þróun tegunda A og B. Sýnt hefur verið fram á að þróunartré sem lágmarkar fjölda sýndarlíkinga, eins og tré (2), er jafnframt það líklegasta á grundvelli tiltekins gagnasafns.
Gögn yfir hópkenni tegunda, eins og kirnaraðir gena, eða líkamsgerð, geta verið gríðarlega umfangsmikil. Þróaðar hafa verið tölfræðiaðferðir til að finna líklegasta þróunartréð fyrir gagnasöfn af ýmsum toga. Í grófum dráttum má skipta þessum aðferðum í tvennt. Annarsvegar eru þær sem byggjast á einföldunargildi (parsimony criterion) og hinsvegar þær sem styðjast við þróunarlíkön, sem aftur eru tvenns konar; í fyrsta lagi aðferð mesta sennileika (maximum likelihood) og hinsvegar aðferðir sem byggjast á bayesískum líkindareikningi. Reyndar eru nafngiftir á þessum aðferðum nokkuð villandi, vegna þess að einföldunaraðferðin (parsimony) tilheyrir einnig flokki tölfræðiaðferða sem eru kenndar við mesta sennileika.
Samrunaþróun og takmörk upprunaflokkunar
Síðustu áratugina hafa þróunartré að verulegu leyti byggst á gögnum um byggingu prótína og gena. Slíkar upplýsingar hafa til að mynda umbylt flokkun blómplantna og dregið fram áður hulinn skyldleika meðal dýra, en jafnframt rennt styrkari stoðum undir viðteknar hugmyndir um skyldleika stærri flokkunarheilda. Þróunartré sem grundvallast á einu eða fleiri genum eru gjarnan kölluð genatré (gene tree). Í ljós hefur komið að mismunandi gen veita misvísandi upplýsingar um skyldleika tegunda svipað og þekkt er með hefðbundin líkamseinkenni eins og beinabyggingu, vöðva, blóðrásarkerfi og fleira. En genin hafa einnig varpað ljósi á furðulegt og áður óþekkt fyrirbrigði, sérstaklega í þróun örvera.
Hefðbundin flokkunarkerfi byggjast á því að hver flokkunarheild og tegund geti aðeins verið upprunnin af einum móðurstofni. Almennt hefur ekki verið gert ráð fyrir að ættmeiðar sem hafa eitt sinn aðgreinst, gætu runnið saman síðar í þróunarsögunni. Hver tegund er því mögulega upphafið að nýjum ættmeið, algerlega einangrað og óháð fjarskyldari flokkunarheildum. Þannig virtist sem þróuninni væru sett ákveðin mörk. Það heyrði til undantekninga að nýjar tegundir yrðu til á einni kynslóð við kynblöndun fjarskyldra tegunda, þótt slík samrunaþróun (reticulate evolution) hafi löngum verið kunnuglegt úrlausnarefni við flokkun ýmissa plantna. Flokkun slíkra blendingstegunda skapar töluverð vandkvæði í hefðbundnum flokkunarkerfum sem eru hugsuð til að endurspegla kvíslgreind þróunartré. Talið var að örverur fylgdu sama kvíslgreinda þróunarferli og dýr og plöntur. Genarannsóknir hafa leitt í ljós að uppruni frumulíffæra á borð við hvatbera og grænukorn verður best útskýrður með samrunaþróun, þar sem örverur af mismunandi tegundum runnu saman í fyrndinni og urðu hlutar af nýjum tegundum. Samhliða því fluttust gen úr erfðamengjum grænukorna og hvatbera inn í erfðamengi viðkomandi „hýsiltegunda“. Þróunarsaga grænukorna og hvatbera á sér því sjálfstæða þróunarsögu áður en þau urðu hlutar af nýjum tegundum og ættbogum.
Síðustu áratugina hefur komið sífellt betur í ljós að bakteríutegundir geta skipst á genum. Þess háttar genaflakk eða láréttur genaflutningur (lateral / horizontal gene transfer) hefur að nokkru marki átt sér stað milli fjarskyldra flokkunarheilda og virðist hafa skipt umtalsverðu máli í þróun örvera. Þegar gen flyst úr einni tegund og yfir í aðra fjarskylda tegund, þá flytjast með aðskotageninu þær stökkbreytingar sem urðu innan upprunalegs ættmeiðs. Að þessu leyti hafa þróunarsögur tveggja ættmeiða runnið saman. Til að greina samrunaþróun af þessum toga meðal örvera er lesið úr mörgum genum, oft heilum erfðamengjum. En samrunaþróun varpar nýju ljósi á merkingu hugtaksins tegund. Til dæmis samanstendur genamengi saurgerilsins Escherichia coli af um 4.288 genum, en uppruna 755 þeirra má skýra sem genaflakk úr fjarskyldum tegundum raunbaktería síðustu 100 ármilljónirnar. Uppruna hvatbera í heilkjörnungum má rekja til svonefndra alfa-dreifkjörnunga og sennilegast eru grænukorn plantna komin af blágrænuþörungum. Slík samrunaþróun fellur ekki vel að kvíslgreindu þróunartré, með einangruðum ættmeiðum sem mynduðust fyrst við aðskilnað tegunda. Þó er sennilegt að verulega hafi dregið úr vægi samrunaþróunar meðal fjölfruma dýra og plantna, en fjölfrumungar urðu ekki til fyrr en tiltölulega langt var liðið á þróunarsögu lífsins. Ái allra lífvera var því ef til vill ekkert eitt lífsform né heldur ákveðinn afmarkaður ættmeiður. Hugsanlega var það samfélag allskyns dreifkjörnunga sem skiptust á genum og þróuðust sem misjafnlega einangraðir hlutar innan sömu heildar. Smám saman varð genaflakk tiltölulega fátíðara milli afmarkaðra hópa þegar hver og einn aðlagaðist að mismunandi umhverfisskilyrðum og myndaði sérhæfða líkamsgerð og lífsmáta, sem samsvara núlifandi flokkunarheildum raunbaktería, fornbaktería og heilkjörnunga. En í reynd er það varla svo að þessar niðurstöður kollvarpi algerlega viðteknum hugmyndum lífsins tré, þó að vissulega breyti þær undirstöðum þess og varpi nýju ljósi á rætur þróunarsögunnar.
(gg@ni.is)
Myndir
Myndatexti: Þrjár mismunandi gerðir af flokkunarheildum. (1) Tveir einættaðir hópar (monophyletic groups) sem hvor um sig inniheldur alla afkomendur frá einum sameiginlegum áa. (2) Fjölættaður hópur (polyphyletic group) inniheldur aðeins hluta af afkomendum tveggja eða fleiri áa. (3) Vanættaður hópur (paraphyletic group) inniheldur aðeins nokkra af afkomendum eins forföður. Aðeins einættaðir hópar samsvara náttúrulegum flokkunarheildum, en fjöl- og vanættaðir hópar eru tilbúnar flokkunarheildir eftir ýmsum hentugleikum og eru á skjön við kvíslgreiningu þróunar. (Eftir Hennig 1965, 2. mynd) – Ljósm. Guðmundur Guðmundsson
Hlutfallsleg skipting dýrategunda milli helstu hópa og fylkinga – Ljósm. Guðmundur Guðmundsson
Almennt
Dýr eru fjölfruma heilkjörnungar (Eucaryota) með ýmsa sérhæfða frumuvefi og líffæri sem aðrar lífverur hafa ekki, til að mynda taugar og vöðva. Flest bendir til að allar dýrategundir myndi einættaða flokkunarheild (monophyletic group), þ.e. að uppruni þeirra er rakinn til einnar og sömu móðurtegundarinnar. Nánasti ættingi dýra eru kragafrumungar (Choanoflagellata), en það eru einfrumungar sem mynda laustengt sambýli margra einstaklinga. Hin sameiginlega formóðir allra vefdýra og núlifnandi kragafrumunga var uppi fyrir rúmlega 600 milljón árum, eða á ofanverðu forkambríum.
Öll dýr eru ófrumbjarga og afla sér næringar með því að taka til sín lífræna fæðu með ýmsum hætti. Þótt slíkur lífsmáti einkenni dýr, þá þekkist hann einnig meðal annarra lífvera, til að mynda gerla og sumra plantna sem veiða dýr sér til viðurværis. Ófrumbjarga lífsmáti er því afar frumstæður eiginleiki, í þeim skilningi að hann varð til og þróaðist löngu fyrir tilurð dýra.
Núlifandi dýr skiptast í um 35 fylkingar (Phylum), sem flestar aðgreindust í þróunarsögunni við upphaf kambríum, fyrir 541 milljón árum. Allflestar þessara fylkinga eiga sér fulltrúa í íslenskri náttúru. Langsamlega tegundaríkasta fylkingin er liðdýr, en þar á meðal eru skordýr, krabbadýr og fleiri fjölskrúðugir undirhópar. Af öllum þekktum tegundum jarðar, þá eru um 82% liðdýr, en þar á eftir eru lindýr, með um 6% tegundanna. Áætla má að heildarfjöldi dýrategunda í heiminum séu um 7,7 milljónir, en þar af er aðeins búið að uppgötva rúmlega 1,6 milljón. Þótt aðeins lítill hluti dýrategunda sé þekktur, þá er nokkuð víst að hlutfallsleg skipting þeirra milli fylkinga liggi fyrir í megindráttum.
Íslenskar dýrategundir skipta þúsundum. Á landi og í ferskvatni eru þekktar rúmlega 2.000 tegundir og innan íslenskrar efnahagslögsögu er vitað um ríflega 2500 tegundir. Heildarfjöldinn er þó eflaust margfalt meiri, enda eru fjölmargir tegundaauðugir dýrahópar í íslenskri náttúru lítt rannsakaðir.
(gg@ni.is)
Heimildir
1.Zhang, Z-Q. (2013). Animal biodiversity: An update of classification and diversity in 2013. Zootaxa, 3703: 5-11.
2.Lecointre, G. & Le Guyader, H. 2006. The tree of life, Harvard Univ. Press, London.
3. Mora C, Tittensor DP, Adl S, Simpson AGB, Worm B (2011). How Many Species Are There on Earth and in the Ocean? PLoS Biol 9(8): e1001127.doi:10.1371/journal.pbio.1001127
Fylking seildýra (Chordata) telur rúm 4% allra dýra (Animalia) en er þó líklega best þekkt. Meðal seildýra eru spendýr, fiskar, fuglar, froskdýr og skriðdýr.
Það sem einkennir seildýr er hryggstrengur eða seil með baklægum holum taugastreng. Baklægi taugastrengurinn er til staðar á fullorðinsstigi meðal hryggdýra en kemur fyrir á einhverjum stigum í þroskaferli annarra seildýra. Seilin verður að hrygg og hauskúpu hjá hryggdýrum.
Heimildir
Jón Már Halldórsson. „Hvað er seildýr?“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2001. Sótt 12. desember 2017. http://visindavefur.is/svar.php?id=1520.
Spendýr (Mammalia) tilheyra fylkingunni seildýr (Chordata) sem flokkast með dýraríkinu (Animalia). Spendýr eru með mjólkurkirtla, feld eða hár, heitt blóð og heila sem stýrir blóðrásakerfinu. Flest spendýr fæða lifandi afkvæmi og kvendýr framleiða mjólk til að næra ungviði sín.
Alls er vitað um 52 tegundir villtra land- og sjávarspendýra í náttúru Íslands og eru sjávarspendýr þar í miklum meirihluta. Mörg þessara dýra eru flækingar sem koma til landsins fyrir slysni og eru ekki í aðstöðu til að fjölga sér eða lifa af í umhverfinu. Aðrar eru innfluttar á síðustu árum og teljast því ekki til íslenskrar fánu.
Hér er fjallað um villt spendýr sem dvelja á eða við Ísland að staðaldri.
Hvalir lifa alla sína ævi í sjó eða vatni og þá er að finna í öllum hafsvæðum heimsins. Stærð og þyngd er afar mismunandi en hvalir geta vegið allt frá rúmum 20 kílóum upp í 190 tonn. Búkurinn er straumlínulagaður og framlimir ummyndaðir í bægsli en afturlimi vantar. Sporðurinn er úr hörðum bandvef og er honum sveiflað til að knýja dýrin áfram. Á bakinu er horn sem auðveldar hvölum að halda jafnvægi á ferð. Þeir hafa ekki hár en fóstur allra hvala eru hærð á einhverju þroskastigi. Hvalir hafa hvorki svitakirtla né fitukirtla en þeir hafa trefjakennt bandvefslag undir húðinni sem er fyllt spiki. Blástursop (nasir) eru ofan á höfðinu og beintengd við lungun.
Núlifandi hvalategundir skiptast í tvo undirættbálka: tannhvali (Odonticeti) og skíðishvali (Mysticeti).
Vitað er um 23 tegundir hvala á íslensku hafsvæði, þar af 7 skíðishvali og 11 tannhvali.
Hér er fjallað um hvali sem dvelja við Ísland að staðaldri.
Höfundur
Ester Rut Unnsteinsdóttir október 2018
Tegund(Species)
Andarnefja (Hyperoodon ampullatus)
English Summary
Hyperodon ampullatus population size in the North Atlantic is hard to estimate due to it´s extreme diving abilities and long time underwater. The population is is believed to account to at least several tens of thousands but population trends are unknown. However, a severe decline cannot be ruled out and therefore the species is listed as data deficient (DD) according to IUCN criteria.