Súlufrugga (Aspergillus fumigatus)

Almennt

Súlufrugga er venjulega vankyns en getur stöku sinnum æxlast kynjað ef að sveppþræðir gagnstæðra æxlunargerða tengjast og þá myndast askhirslur af af neosartorya-gerð.

Þetta er sveppur sem þolir hita nokkuð vel og vex við hitastig frá 12°C upp í 57°C en þolir heldur hærra hitastig í stuttan tíma. Hann var t.d. annar tveggja tegunda myglusveppa sem uxu á veggjum húss á Stokkseyri sem varð fyrir heitavatnstjóni snemma árs 2011 og stóð gufufyllt um tíma. Hann finnst samt ekki oft innanhúss hérlendis þótt hann sé einn þeirra sveppa sem oft finnst í innilofti (Samson o.fl. 2019).

Sveppurinn framleiðir fjölbreytt efni og Samson o.fl. (2019) telja upp sveppaeiturefnin gliotoxin, fumigaclavine A og B, fumitremorgin A, B og C og verruculogen sem þau mikilvægustu auk fleiri efna sem einkenna tegundina. Domsch o.fl. (1993) telja upp fjölda afleiddra efnasambanda sem sveppurinn framleiðir. Aspergillus fumigatus er einn þeirra sveppa sem sýkir fólk og þá oftast gegnum öndunarveg og lungu og veldur sjúkdómnum aspergillosis. Sveppurinn sýkir einnig skepnur, bæði húsdýr og villt dýr (Domsch o.fl 1993).

Súlufrugga myndar blágræna, mjög þétta gróhausa á kylfulaga framenda gróberanna. Pyttlur sem mynda gróin sitja beint á þessum útbelgda enda og vísar framendi þeirra upp og þegar sveppurinn hefur myndað gró í nokkra daga er gróhausinn hnöttóttur en síðan lengist hann og hver gróberi heldur uppi stuttri blágrænni grósúlu. Íslenskt nafn sveppsins er dregið af þessari lögun grómassa hans.

Ríki (Kingdom)
Sveppir (Fungi)
Fylking (Phylum)
Asksveppir (Ascomycota)
Undirfylking (Subphylum)
Skálarundirfylking (Pezizomycotina)
Flokkur (Class)
Frugguflokkur (Eurotiomycetes)
Ættbálkur (Order)
Eurotiales (Eurotiales)
Ættkvísl (Genus)
Frugga (Aspergillus)
Tegund (Species)
Súlufrugga (Aspergillus fumigatus)