Eski (Equisetum hyemale)

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum en vex víða mjög strjált, einkum þar sem beit er mikil. Það finnst almennt frá láglendi upp í um 600 m hæð, hæst skráð í rúmlega 700 m á miðhálendinu í Fögruhlíð við Langjökul, á Arnarfelli og Laugarfelli við Hofsjökul. Sums staðar þar sem land hefur verið afgirt og friðað til skógræktar hefur því fjölgað mjög og getur myndað allþéttar breiður.

Almennt

Þótt gróft sé er það viðkvæmt fyrir beit en sums staðar verður mjög mikið af því í friðuðu landi.

Búsvæði

Vex í grýttu landi, vindblásnum fjallahlíðum en einnig í skóglendi, mólendi og kjarri.

Lýsing

Meðalhá elfting (20–30 sm) með liðskipta stöngla, hliðargreinar neðst.

Blað

Sprotar eskisins vaxa upp af jarðlægum, svörtum jarðstönglum. Stönglarnir liðskiptir, sígrænir, með áberandi slíðrum sem eru niðurmjó með misbreiðu, svörtu belti neðst, og eru nær alltaf greinalausir nema neðst og eru þar fágreindir. Slíðurtennur 18-20 talsins, jafnbreiðar fram, ljósgráar, þverstífðar og svartar í endann, visna og falla fljótt af og verður því jaðarinn óreglulegur eða trosnaður. Stöngullinn er allgildur (4-6 mm), ofurlítið gáraður, með röðum af kísiltönnum sem gera hann hrjúfan. Hliðargreinar geta stöku sinnum orðið til á særðum stönglum eða í toppi gamalla stofna.

Blóm

Gróaxið endastætt á grænum stönglum, svart og oddmjótt (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Líkist helst fergini en það er mýkra og linara viðkomu, hefur miklu víðara miðhol, reglulegri og varanlegri slíðurtennur og vex í blautara landi. Líkist einnig beitieski en það er mklu grennra og með þrengra miðhol í stönglunum, slíðurtennur færri og varanlegri. Líkist einnig eskibróður/beitieski sem greinist einkum frá eski á grennra vaxtarlagi, miklu þrengra miðholi í stönglinum, og á sérlega löngum og grönnum slíðurtönnum á yngstu (efstu) stöngul­slíðrunum, en eldri slíðrin líkjast hins vegar slíðrum eskisins.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Elftingar (Equisetopsida)
Ætt (Family)
Elftingarætt (Equisetaceae)
Tegund (Species)
Eski (Equisetum hyemale)