Klóelfting (Equisetum arvense)

Útbreiðsla

Algeng um allt land frá láglendi upp í um 1000 m hæð.

Almennt

Hinir svörtu jarðstönglar klóelftingarinnar verða oft áberandi þegar grafnar eru djúpar gryfjur. Þeir geta náð metra niður í jörðina eða meira, og má stundum sjá á þeim kolsvört hnýði, svokölluð sultarepli. Í þeim er geymd forðanæring yfir veturinn, sem auðveldar elftingunni að koma upp grókólfunum snemma vors áður en orkustöðvar grænu sprotanna taka til starfa.

Gróhirslur ber hún á sérstökum vorkólfum sem nefndir eru skollafætur eða góubeitlar, en þeir vaxa mjög snemma á vorin áður en hinir grænu sprotar elftingarinnar fara að sjást. Eins og hjá öðrum byrkningum verður til forkím þegar gróin spíra.  Forkímið er blaðkennt og myndar kynfrumur, og eftir frjóvgun vex ný elfting upp af okfrumu forkímsins.

Búsvæði

Vex bæði í ræktarjörð og úthaga, mólendi, garðar, röskuð svæði, vegkantar, flög, valllendi, fjallamelar og skógar.

Lýsing

Meðalhá elfting (20–40 sm) með liðskipta stöngla og greinakransa.

Blað

Hinir grænu sprotar klóelftingarinnar hafa gárótta, liðskipta, sívala stöngla með liðskiptum, kransstæðum greinum. Fíntennt slíður við hvern lið og svartar slíðurtennur á stönglum 10-12. Greinarnar jafnmargar (10-12) í kransi, grænar, kransstæðar, uppsveigðar, liðskiptar, með þrem grænum tönnum við hvern lið, ógreindar, hvassþrístrendar í endann en ferstrendar næst stofninum, neðsti liður hverrar greinar mikið lengri en stöngulslíðrið (munurinn þó lítill á neðstu greinum).

Blóm

Gróöxin á sérstökum, blaðgrænulausum stönglum, ljósmóleitum með svörtum slíðrum. Þeir vaxa snemma á vorin, á undan grænu stönglunum og falla eftir gróþroskunina (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Klóelftingin líkist einna mest vallelftingu, og getur stundum verið erfitt að greina þær í sundur, einkum skuggaeintök sem vaxa í skógarbotnum. Greinar klóelftingarinnar eru heldur grófari og oftast nokkuð uppréttar eða uppsveigðar, greinar vall­elftingar fíngerðari og oftast láréttar eða lítið eitt niðursveigðar. Greinakrans klóelftingarinnar er oft toppmyndaður að ofan og stendur stöngulendinn gjarnan upp úr, en vaxtarlag vallelftingarinnar er kollóttara í toppinn. Oft er notað til aðgreiningar þegar annað þrýtur að skoða lengdarhlutfall stöngulslíðurs og neðsta greinliðar. Á klóelftingu er neðsti greinliðurinn töluvert lengri en stöngulslíðrið, en ívið styttri á vallelftingunni. Þar sem þessi hlutföll eru önnur efst og neðst á stönglinum er vissast að nota stöngulmiðjuna til samanburðar. Frá mýrelftingu, sem oftast hefur miklu færri greinar, má þekkja klóelftinguna á hinum skarpþrístrendu greinendum.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Elftingar (Equisetopsida)
Ætt (Family)
Elftingarætt (Equisetaceae)
Tegund (Species)
Klóelfting (Equisetum arvense)