Skógelfting (Equisetum sylvaticum)

Útbreiðsla

Mjög sjaldgæ, er aðeins fundin á þrem stöðum á landinu. Hún hefur fundist á nokkru svæði bæði vestur í Heydal við Ísafjarðardjúp, og í Sandvík á Austfjörðum. Þriðji fundarstaðurinn er við Ingólfsfjörð á Ströndum. Allir fundarstaðirnir eru á láglendi neðan 200 m. Ekki leikur vafi á því að skógelftingin er gömul í landinu, og ekki ólíklegt að hún kunni að hafa verið útbreiddari á meðan birkiskógar þöktu láglendi landsins. Sennilegt má telja að hún eigi eftir að finnast víðar en orðið er, því fáir veita henni athygli eða þekkja hana.


Búsvæði

Vex í grónu deiglendi, oft meðfram lækjarsytrum, ýmist í grónum eða flagkenndum jarðvegi.

Lýsing

Meðalhá elfting (20–40 sm) með liðskipta stöngla og liðskiptar, kransstæðar og greindar hliðargreinar.

Blað

Stönglar skógelftingarinnar vaxa upp af brúnum jarðstönglum, sem oft eru ofurlítið loðnir. Stönglarnir uppréttir, grænir, sívalir, gáróttir með 10-18 gárum, liðskiptir, með liðskiptum, kransstæðum greinum. Tennt slíður við hvern lið, slíðurtennur brúnar eða rauðbrúnar ofan til, oft 2-3 grónar saman. Greinarnar 9-12 í kransi, þrí- til fjórstrendar með djúpum grópum á milli, grænleitum eða móbrúnum tönnum við hvern lið, greinast oft sjálfar í tvennt eða þrennt við hvern af neðstu liðunum. Ystu greinendar með ógreinda liði, þrístrendir.

Blóm

Grókólfar eru í fyrstu móleitir og ógreindir, en grænka fljótt og greinast við þroskun.

Greining

Fremur auðþekkt á brúnleitum slíðrum og á greindum greinum.

Válistaflokkun

VU (tegund í nokkurri hættu)

ÍslandHeimsválisti
VU NE

Forsendur flokkunar

Skógelfting flokkast sem tegund í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði tegundarinnar er takmarkað, u.þ.b. 7 km2 auk þess sem einungis 3 fundarstaðir eru þekktir.

Viðmið IUCN: D2

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.
D2. Restricted area of occupancy or number of locations with a plausible future threat that could drive the taxon to CR or EX in a very short time.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Skógelfting er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Válisti 1996: Skógelfting er á válista í hættuflokki VU (í yfirvofandi hættu).

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Elftingar (Equisetopsida)
Ætt (Family)
Elftingarætt (Equisetaceae)
Tegund (Species)
Skógelfting (Equisetum sylvaticum)