Kollhæra (Luzula multiflora)

Útbreiðsla

Mjög aleng um land allt á láglendi og upp í um 600 til 700 m hæð en ekki þar fyrir ofan

Almennt

Hvítu hárin umhverfis blaðslíðrið gefur plöntunni nafn sitt.

Búsvæði

Þurrir móar, valllendi, kjarr, fjallshlíðar.

Lýsing

Meðalhá til hávaxin hæra (15–50 sm) með nokkur blómhnoðu í hnapp. Blómgast í júní.

Blað

Stráið sívalt. Stoðblaðið nær venjulega upp fyrir legglengstu blómhnoðun. Stofnblöðin 3–6 mm breið, flöt eða ofurlítið uppsveigð á jöðrum, oft meir eða minna rauðleit með löngum, hvítum hárum á röndunum, einkum neðst við blaðfótinn.

Blóm

Blómin eru mörg saman í 4–8 blómhnoðum á mislöngum leggjum. Blómhlífarblöðin sex, oddmjó, dökkbrún. Fræflar sex. Ein þrístrend fræva með einum stíl og þrískiptu fræni.

Greining

Líkist helst dökkhæru sem er með dekkri blómhnoðu sem eru oftast í þéttum hnapp, efsti hluti plöntunnar oft rauðari, stráið uppsveigt neðst. Dökkhæran vex einnig í fremur blautu landi, oft mýrum, á meðan vallhæran vex í þurrum móum og graslendi.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Sefætt (Juncaceae)
Tegund (Species)
Kollhæra (Luzula multiflora)