Háliðagras (Alopecurus pratensis)

Útbreiðsla

Er innflutt grastegund sem ræktuð hefur verið í sáðsléttum frá því snemma á 20. öldinni. Það er harðgert og snemmþroska og hefur því sáð sér töluvert út af sjálfsdáðum. Það er því algengt í túnum og í nágrenni túna í byggð um land allt, einnig víða meðfram vegum.

Almennt

Nytjar

Algeng tegund í túnum og sáðsléttum.

Búsvæði

Tún og annað graslendi. Háliðagras er ræktað í túnum en slæðist þaðan í graslendi, skurði og vegkanta.

Lýsing

Hávaxið gras (30–120 sm) með langt, grátt, þétt en mjúkt ax. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stráið er sívalt. Slíðurhimnan 2–3 mm á lengd, þverstífð en skörðótt. Blöðin flöt, 5–9 mm á breidd (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Smáöxin eru einblóma, þétt saman í sívölu, gráu, 3–8 sm löngu og 6–10 mm breiðu samaxi, sem við nánari athugun reynist þó vera axpuntur þar sem smáöxin hafa örstutta greinda leggi. Smáöxin með týtu sem oftast er nokkuð styttri en axagnirnar. Fræflarnir hanga út úr axinu um blómgunartíma, með fjólubláa eða brúna frjóhnappa (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).

Greining

Líkist vallarfoxgrasi en þekkist frá því á mýkri punti. Axagnir smáaxanna á vallarfoxgrasi eru einnig með tvö einkennandi horn. Axið á háliðagrasi er grennra en á vallarfoxgrasi þar sem smáöxin liggja þéttar upp að axinu, og einnig eru smáöx háliðagrassins lausari á axhelmunni og auðveldara er að ná þeim af. Háliðagras þekkist frá knjáliðagrasi á lengri og ljósari punti auk þess sem háliðagras er mun hávaxnara (Hörður Kristinsson 1998).

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson. 1998. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (2. útg., texti óbreyttur frá 1986). Íslensk náttúra II. Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Grasætt (Poaceae)
Tegund (Species)
Háliðagras (Alopecurus pratensis)