Melgresi (Leymus arenarius)

Útbreiðsla

Það er algengt í kring um landið frá sjávarmáli upp í um 800 m hæð, og er einnig víða á móbergssvæði hálendisins. Hæst mun það vera skráð í um 900 m við Urðarháls og á Dyngjufjallasvæðinu. 

Búsvæði

Sandar, einkum foksandar, sandorpin hraun, vikrar og fjörur.

Lýsing

Stórvaxið gras (50–90 sm) með löngu, grófu axi. Blómgast í júní.

Blað

Stórvaxið og afar grófgert gras. Stráin afar sterkleg, hárlaus. Blöðin breið, 5–10 mm en verpast upp frá hliðunum í þurrki, blöð blaðsprota oft mjórri (Hörður Kristinsson 2010). Á foksandsvæðum myndar melgresið utan um sig sandhóla.

Blóm

Axið endastætt, 12–20 sm langt og 10–18 mm breitt. Smáöxin oftast þríblóma en stundum með fjórða blómið sem þá er gelt. Axagnir lensulaga, oddmjóar, 15–20 mm langar, oft lítið eitt hærðar. Blómagnir kafloðnar, þær neðstu álíka langar og axagnirnar, þær efri styttri, oddhvassar en týtulausar. Frjóhnappar fjólubláir, um 5 mm langir (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).

Greining

Líkist helst dúnmel en efri hluti stönguls dúnmels er loðinn.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Grasætt (Poaceae)
Tegund (Species)
Melgresi (Leymus arenarius)