Snarrótarpuntur (Deschampsia cespitosa)

Útbreiðsla

Algengur um allt land, nema síst á Vestfjörðum þar sem hann virðist vera nýlegur landnemi, og í Skaftafellssýslu og víðar á Suðurlandi, þar sem hann er einkum í byggð. Á innanverðu Norðausturlandi er hann mjög dreifður langt inn á heiðar og upp eftir fjöllum upp í 700 m hæð. Hugsanlega er hann mjög gamall á því svæði, kominn þar löngu fyrir landnám. Sumir telja þó að hann hafi borist hingað með landnámsmönnum, en sé búinn að dreifa sér svona mikið síðan með sauðfé. Sé svo er þó ekki ljóst hvers vegna hann hefur dreifst svona mikið um allt landræna svæðið norðan jökla, en ekki um suðurhluta hálendisins.

Búsvæði

Gróskumikið graslendi, móar og tún.

Lýsing

Stórvaxið gras (40–120 sm) sem myndar áberandi þúfur. Punturinn er fjólubláleitur og langur. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Blöðin 2–4 mm breið, mjög snörp og skarprifjuð. Slíðurhimnur efstu blaðanna 5–6 mm langar (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Punturinn 15–20 sm langur, keilulaga. Smáöxin tvíblóma, fjólubláleit eða dökkbrún. Neðri axögnin eintauga, 3-4 mm; sú efri þrítauga, 3-5 mm. Löng hár umhverfis blómagnirnar. Neðri blómögnin með bakstæðri týtu við fótinn (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).

Greining

Líkist helst hálíngresi en snarrótarpunturinn þekkist á skarprifjuðum blöðum, hvítröndóttum gegnt ljósi og grófgerðari punti.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Grasætt (Poaceae)
Tegund (Species)
Snarrótarpuntur (Deschampsia cespitosa)