Vallarsveifgras (Poa pratensis)

Útbreiðsla

Vallarsveifgras er algengt um allt land og finnst allt upp í 1100 m hæð í fjöllum. Hæst hefur það verið skráð á fuglaþúfu uppi á Staðargangnafjalli við Tungnahryggsjökul í 1360 m hæð.

Búsvæði

Vex bæði í túnum, grasflötum á lóðum, óræktuðu valllendi, grasi grónum hlíðum og á mýraþúfum. Það hefur tilhneigingu til að vaxa fremur í áburðarríku landi, t.d. á fuglaþúfum eða þar sem sauðfjáráburður fellur til. Það er einnig mjög mikið í grasflötum inni á ræktuðum lóðum.

Lýsing

Fremur hávaxin grastegund (20–70 sm), blaðmikil og skriðul. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Skriðular, blaðmiklar renglur áberandi. Renglurnar flatvaxnar og blöðin samanbrotin um kjölinn, blaðoddurinn í lögun eins og bátstefni. Slíðurhimna engin við neðsta blaðslíður, stutt við þau efstu (1–2 mm) (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Punturinn 5–15 sm langur. Smáöxin með þrem til fimm blómum. Axagnirnar oftast fjólubláar, með skörpum kili, oddmjóar, þrítauga. Blómagnirnar með ullhárum við fótinn og upp eftir taugunum, oddmjóar, himnurendar, oft grænar neðan til, fjólubláar ofar (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Aldinið er hneta þar sem fræskurn og aldinhýði er runnið saman í eitt (Lid og Lid 2005).

Afbrigði

Vallarsveifgras er mjög breytileg tegund og hefur því verið skipt niður í nokkrar deilitegundir.

Greining

Líkist hásveifgrasi, varpasveifgrasi og fjallasveifgrasi. Hásveifgras hefur oft stærri, fíngerðari og grænni punt en öruggasta einkennið er 4–8 mm löng, oddmjó slíðurhimna. Varpasveifgras hefur ljósgrænni blöð og punt, lengdarmunur axagnanna er einnig gott einkenni. Vallarsveifgras þekkist frá fjallasveifgrasi á skriðulum renglum sínum með samanbrotnum, löngum blaðsprotablöðum.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Grasætt (Poaceae)
Tegund (Species)
Vallarsveifgras (Poa pratensis)