Sýkigras (Tofieldia pusilla)

Útbreiðsla

Algengt um allt land frá láglendi upp í um 850 m hæð. Hæst skráð við Illviðrahnjúka norðan Hofsjökuls í 900 m hæð. 

Almennt

Áður fyrr var jurtin talin óholl búfénaði og þaðan eru nöfnin sýki- og sýkingargras dregin. Sauðfé og hestar draga hana upp með rótum en éta ekki. Í hrossahögum má oft sjá sýkigras liggja laust ofan á jörðunni, því ef hestar rífa það óvart upp með grasinu, skyrpa þeir því aftur út úr sér. Blöðin eru vond á bragði og talin eitruð. Eins eru nöfnin bjarnarbroddur og íglagras þekkt á þessari tegund bæði hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum en þau vísa í útstæð blöð plöntunnar (Ágúst H. Bjarnason 1994, Hörður Kristinsson).

Búsvæði

Móar, haglendi og óræktarland.

Lýsing

Smávaxin jurt (8–18 sm) með sverðlaga blöð og hvíta blómklasa á stöngulenda. Blómgast í júní.

Blað

Blöðin öll við stofninn, sverðlaga, upprétt og heilrend, 2–3 sm á lengd og um 2 mm á breidd, raða sér í einn flöt líkt og á blævæng (Hörður Kristinsson 2010).

Blóm

Blómin eru gulhvít og standa þétt saman í stuttu, nær hnöttóttu (5–7 mm) axi efst á blaðlausum stöngli. Blómhlífarblöðin sex, oddbaugótt eða lensulaga, 2–3 mm á lengd. Sex fræflar. Ein þrískipt fræva með þrem frænum (Hörður Kristinsson 2010).

Aldin

Aldinið um 3 mm á lengd, klofnar í þrennt við þroskun, hver hluti bjúglaga með stutta trjónu (Hörður Kristinsson 2010).

Greining

Auðþekkt á hinni sérkennilegu afstöðu blaðanna sem er einstæð meðal íslenskra tegunda.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Ágúst H. Bjarnason og Eggert Pétursson. 1994. Íslensk flóra með litmyndum. Forlagið, Reykjavík.

Hörður Kristinsson 2008. Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson og Sigurður Valur Sigurðsson. 2010. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, 2010

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Sýkigrasætt (Tofieldiaceae)
Tegund (Species)
Sýkigras (Tofieldia pusilla)