Vatnalaukur (Isoetes lacustris)

Útbreiðsla

Hefur aðeins fundist á nokkrum stöðum á Suðvesturlandi.

Búsvæði

Vex ætíð á kafi í vatni í stöðuvötnum eins og álftalaukur, en fremur í stærri vötnum og á meira dýpi.

Lýsing

Lágvaxin jurt (5–15 sm) með stinn blöð í stofnhvirfingu.

Blað

Álftalaukurinn hefur örstuttan, tiltölulega gildan (0,5-1 sm), skífulagan stöngul með þéttri hvirfingu af dökkgrænum, uppréttum, fremur stinnum og striklaga  blöðum. Blöðin eru jafnbreið fram þar til þau grennast rétt við oddinn, 5-12 sm löng. Í þversniði má sjá að fjögur lofthólf liggja eftir endilöngum blöðunum.

Aldin

Gróhirslur eru neðst í blaðfætinum. Í gróhirslum ytri blaðanna eru hvítgrá (Lid og Lid 2005) stórgró sem eru um 0,5-0,7 mm í þvermál, með þrem upphleyptum rifjum, fletirnir á milli þeirra eru með óreglulegum og aflöngum vörtum fremur en göddum, netkennt yfirborð. Í gróhirslum innri blaðanna eru mörg, örsmá og ílöng smágró.

Greining

Líkist mjög álftalauk en hefur lengri og stinnari blöð, breiðari í oddinn. Öruggast er að skoða yfirborð gróanna sem er netkennt/vörtótt á vatnalauk en göddótt á álftalauk.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Jafnar (Lycopodiopsida)
Ætt (Family)
Álftalauksætt (Isoetaceae)
Tegund (Species)
Vatnalaukur (Isoetes lacustris)